144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað vilja allir að launahækkanir og kaupmáttur haldist í hendur. Það gengur enginn fram í launabaráttu sinni og heimtar hærri laun og vill að fylgifiskurinn sé að verðbólga rjúki upp og kaupmáttur lækki í kjölfarið. En ég tel ekki að það eigi að vera einungis á herðum þeirra sem eru með frá rúmum 200 þús. kr. og kannski upp í 350 þús. kr. í laun á mánuði að varðveita stöðugleikann. Það er allt of lengi búið að hamra á því að fólkið með lægstu launin í þessu þjóðfélagi eigi að bera ábyrgð á stöðugleika þegar aðrir skammta sér laun eins og við höfum horft upp á til fjölda, fjölda ára í svo mörgum stéttum þar sem menn geta gert það án þess að spyrja Pétur eða Pál og þurfa ekki að fara í verkfall til þess að sækja sínar launakröfur með tilheyrandi kostnaði og öllu því sem því fylgir sem er ekki öfundsvert. Það er kominn tími til að sáttin sé við þann hóp þjóðfélagsins sem hefur unnið myrkranna á milli fyrir þessum lágu launum og sátt sé um að hækka þau án þess að launaskriðan fari alveg upp í alla toppa. Ég tel eins og kannski er alltaf verið að tala um að þjóðarkökunni sé ekki jafnt skipt. Ef við horfum á einstök fyrirtæki, ef þar innbyrðis væri eðlilegri skipting launa þá þyrfti ekki allt að fara á hliðina hér. En þegar sumir geta alltaf tekið sér hækkanir út fyrir (Forseti hringir.) sviga þá standa þeir lægst launuðu frammi fyrir því að bera ábyrgð á stöðugleikanum.