144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[13:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held við séum sammála um þessa þróun og ég tel að ekkert í frumvörpunum muni hindra þróunina sem hv. þingmaður nefnir. Ég held að rétt sé að hafa í huga að þrátt fyrir að íslenskir tónlistarmenn hafi náð miklum árangri á alþjóðlegum vettvangi með tónlist sína er þetta órofakeðja allt frá tónlistarnáminu, síðan allur sá stóri hópur tónlistarmanna sem gefur út og spilar, býr til hlustendamarkaðinn, en það er ekki nema hluti af þeim stóra hópi sem nær inn á hinn alþjóðlega markað, reyndar lítill hluti. Þá skiptir máli að til sé heimamarkaður sem grípur utan um þann stóra hóp, því að ef þetta rofnar heldur það ekki áfram, þá verður það aðeins afmarkaður hluti í sögu okkar, það eru í það minnsta áhyggjur mínar. Það verður að vera áfram markaður fyrir nýjar hljómsveitir til þess að koma fram með list sína og útgáfur og geta selt það.

Ég er sammála hv. þingmanni, það er það sem mun gerast, þessi módel munu koma. En menn hafa áhyggjur af því hér, og víðar, að við séum stödd á þeim stað núna að módelin séu ekki nægjanlega öflug og, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, að það fari of lítið til listamannanna og of mikið til þeirra fyrirtækja sem reka þjónustur á borð við þær sem voru nefndar, Spotify og aðrar slíkar. Það er heldur ekki alveg í lagi fyrir okkur. Öll þessi umræða er því mikilvæg og nauðsynlegt að hafa þau sjónarmið í huga. Það sem er í þessum frumvörpum og gæti snert á þetta er auðvitað sjálfsagt að skoða alveg sérstaklega.