144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem ég hlustaði á af athygli, ég veit að hv. þingmaður hefur sterka skoðun á þessum málum. Hann nefndi eitt sem mér fannst vera áhugavert þegar hann talaði um hvernig tæknin er að taka á þessu með ákveðnum hætti og nefndi tölvuleiki og annað slíkt, tölvuleikir eru fyrir lifandi löngu orðnir eitthvað miklu meira en sem snýr að börnum og ungmennum eins og var þegar ég var á þeim stað í lífinu, en það er aukaatriði.

Ég vildi hins vegar spyrja hann að öðru. Eins og ég skil vandann er stærsti einstaki vandinn sá að menn eru með mjög dýra framleiðslu eðli málsins samkvæmt. Þeir sem framleiða leggja út í kostnað og þeim finnst það ekki sanngjarnt að fá ekki greitt fyrir vinnu sína, og þá er ég sérstaklega að vísa til kvikmynda. Nú er það staðreynd, og ég held að við Íslendingar séum sérstaklega slæmir í því, að mjög mikið er af niðurhali þegar kemur að slíkum þáttum. Ég veit alla vega ekki um neinar tæknibreytingar eða úrlausnir sem hafa komið í veg fyrir það. Þetta skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli því að þetta er eign þeirra listamanna og framleiðenda sem framleiða slíka vöru. Og menn geta sagt: Það skiptir ekki máli, þessir stórríku, hver vorkennir þeim? En þeir vinna líka í þessu sem eru að byrja og eru að koma undir sig fótunum. Það segir sig sjálft að ef menn fá ekki greitt fyrir þá framleiðslu hefur það neikvæðar afleiðingar í för með sér. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sjái einhverja lausn á þessu. Ég vona að við séum sammála um að það sé ósanngjarnt að menn fái ekki greitt fyrir það sem þeir eru búnir að framleiða og það endar bara á mjög slæmum stað ef það heldur áfram.