144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

utanríkisþjónusta Íslands.

597. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta snýst einfaldlega um það að stöður sendiherra verði auglýstar. Almenna reglan er sú varðandi stöður og embætti hjá hinu opinbera, eins og kveðið er á um m.a. í lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, að auglýsa á stöður, til dæmis þegar skipað er í embætti ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra, þá á að auglýsa þær stöður og fólki er gefið færi á að sækja um þær. Þetta hefur verið þróunin hjá hinu opinbera að stöður eru auglýstar, en samkvæmt lögum um utanríkisþjónustu Íslands er undanþága þegar kemur að skipun sendiherra. Samkvæmt þeirri undanþágu þarf ekki að auglýsa stöður sendiherra. Frumvarpið gengur einfaldlega út á það að afnema þá undanþágu. Sjónarmið sem því liggja til grundvallar eru einfaldlega þau sömu sem liggja til grundvallar því að það eigi almennt að auglýsa stöður hjá hinu opinbera. Það eru ákveðin jafnræðissjónarmið sem snúast einfaldlega um það að veita eigi öllum þeim sem kunna að hafa áhuga á að gegna þessum stöðum tækifæri til að sækja um. Það verður líka að iðka gagnsæi við meðferð opinbers valds við umsóknarferli því að ákveðnar skyldur hvíla á hinu opinbera til að rökstyðja niðurstöðu sína með faglegum hætti og mæta alls kyns kröfum sem við gerum til slíkra ákvarðana.

Núna eru sendiherrar skipaðir á grundvelli þessa undanþáguákvæðis einfaldlega með ákvörðun ráðherra, ráðherra skipar sendiherrana. Þetta er bagalegt og í besta falli barn síns tíma. Þetta er ákaflega gamaldags hugmynd um opinbert vald og í rauninni möguleg gróðrarstía fyrir misbeitingu á því valdi. Ef menn hafa svona óskorað vald til að færa mönnum þau gæði sem mögulega felast í því að vera sendiherra einhvers staðar, þá geta menn mjög auðveldlega misbeitt því í núverandi ástandi og notað þessar stöður einfaldlega sem bitlinga. Ég er ekki að segja að það sé gert, en hins vegar er ekkert í fyrirkomulaginu núna sem aftrar því og það er slæmt. Slík ráðningarferli á vegum hins opinbera eiga að vera opin og gagnsæ og einkennast af fagmennsku. Það eru engar sérstakar ástæður fyrir því af hverju sendiherrastöður eiga að vera undanskildar slíku.

Ég hef fengið upplýsingar um það að annars staðar á Norðurlöndum er einhvers konar fastmótað ferli við ráðningu sendiherra. Í Noregi, að mig minnir, tíðkast ekki að ráða sendiherra úr þjóðfélaginu eða utanaðkomandi, þeir eru yfirleitt einhvers staðar innan úr utanríkisþjónustunni sjálfri, en þá er auglýst á vef utanríkisráðuneytisins, á lokuðum vef meðal starfsmanna og þeir geta þá sótt um. Þeim sjónarmiðum er mætt þannig þar.

Ég hef alveg skilning á því að hér á landi viljum við bæði ráða sendiherra úr utanríkisþjónustunni, eftir kannski einhverju ákveðnu framgangskerfi sem ég held að sé að hluta til við lýði, og líka að geta ráðið sendiherra annars staðar frá. Það er allt gott og blessað og það getur vel verið að það henti þessu samfélagi, en það verður þá að gera það eins og með aðrar stöður á vegum hins opinbera eftir umsóknarferli þar sem allir geta sótt um.

Tiltölulega nýlega tóku gildi lög, lagaákvæði sem kveða á um það að það eigi til dæmis að auglýsa stöðu ráðuneytisstjóra, og ráðuneytisstjóri er á sama stigi og sendiherra, þannig að núna þegar þarf að auglýsa stöðu ráðuneytisstjóra þá fækkar röksemdunum fyrir því að ekki eigi að auglýsa stöður sendiherra. Þetta eru fyllilega sambærilegar stöður. Þetta er brýnt mál út frá sjónarmiðum um góða og vandaða stjórnsýslu. Við viljum náttúrlega hafa svoleiðis í landinu. Ein birtingarmynd þess er kannski að ekki hefur verið nógu mikið aðhald í þessum ráðningum í lögum. Það er einfaldlega undirselt ákvörðunarvaldi ráðherra hverju sinni hvernig kynjaskiptingin er á sendiherrum. Árin 2014 voru 28 karlar sendiherrar og níu konur. Þetta er auðvitað óviðunandi kynjahlutfall. En ef það væri auglýsingaferli eða auglýsa þyrfti þessar stöður þá væri meira aðhald og meiri krafa um að ráða fleiri konur væntanlega í stöðu sendiherra, vegna þess að þær kröfur um jafnræði kynjanna eru gerðar í opinberum ráðningarferlum en þetta ferli er algerlega undanskilið slíkum kröfum. Þetta er bara ein birtingarmynd þess hversu bagalegt það er.

Þessari tillögu hefur nýlega borist mjög athyglisvert og mikilvægt liðsinni. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar, Rekstur og starfsemi sendiskrifstofa Íslands, er mjög eindregið farið fram á það við ráðuneytin að stöður sendiherra verði auglýstar eins og aðrar stöður á vegum hins opinbera. Svar ráðuneytisins er efnislega ekki mjög merkilegt, finnst mér. Þar er sagt að annars vegar hafi það tíðkast að sendiherrar komi úr utanríkisþjónustunni og ef þeir koma úr utanríkisþjónustunni þá hafa þeir á einhverjum tímapunkti sótt um stöðuna og farið í gegnum ráðningarferli. Síðan fara þeir í gegnum ákveðið framgangsferli og fara þaðan inn í sendiherrastöðuna. Svo fremi sem framgangsferlið er gagnsætt og skýrt og öllum opið og ljóst og allir fái að keppa á þeim grundvelli, þá sé ég ekki að þetta frumvarp, sem ég og við í Bjartri framtíð leggjum hér fram, útiloki það ferli í stöðu sendiherra. Það getur verið framganga innan ráðuneytisins svo lengi sem menn hafi sótt einhvern tíma um störf í utanríkisþjónustunni og gengið í gegnum ráðningarferli. Hins vegar segir ráðuneytið að það hafi líka tíðkast að ráða fólk utan úr samfélaginu, eins og við höfum tvö nýleg dæmi um, og um það segir ráðuneytið í svari til Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Sendiherraefni utan raða utanríkisþjónustunnar, t.d. úr stjórnmálum, viðskipta- og menningarlífi, búa yfir mikilli reynslu af sambærilegum störfum, hafa ríka þekkingu á alþjóðamálum og eru góð viðbót við mannauð ráðuneytisins.“

Þetta er eina röksemd ráðuneytisins fyrir því að auglýsa ekki þessar stöður, þetta er allt svo gott fólk sem ráðuneytið hefur valið og væntanlega því ekki ástæða til að auglýsa. Þetta er auðvitað mjög veikur rökstuðningur fyrir því fyrirkomulagi. Af hverju skyldum við þá ekki nota þennan rökstuðning almennt við ráðningu í stöður á vegum hins opinbera? Að hinu pólitíska valdi, ráðherrunum, hefur auðnast svo vel að ráða í stöður að alger óþarfi er að hafa ráðningarferlið gagnstætt eða byggt á einhverjum jafnræðissjónarmiðum? Það eru auðvitað engin rök fyrir þessari undanþágu.

En mér sýnist það vera skýr krafa í takt við tíðarandann að þessi undanþága úr lögum um utanríkisþjónustu gagnvart auglýsingaskyldu á opinberum störfum verði einfaldlega felld úr gildi. Ég trúi ekki öðru en málið eigi sér greiða leið í gegnum nefnd og hið háa Alþingi, sérstaklega með nýlegum og mjög afgerandi stuðningi og kröfu Ríkisendurskoðunar.