144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

skilgreining auðlinda.

184. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda Íslands, það er kominn tími til. Ég ætla að flytja mál mitt upp úr þingsályktunartillögunni sjálfri þannig að það verður nokkuð um lestur í þetta sinn.

Auðlindaréttur er ný fræðigrein í íslenskri lögfræði og er nátengdur umhverfisrétti. Eðli málsins samkvæmt fjallar auðlindaréttur um þær réttarreglur sem varða stjórnun, nýtingu og meðferð auðlinda. Heildstæð stefna um nýtingu auðlinda hefur ekki verið mótuð að neinu marki hérlendis.

Eitt af því sem stuðlar að ábyrgri umhverfishegðun er að líta svo á að náttúruauðlindir og réttur til þess að nýta þær hafi verðgildi þó að í sumum tilfellum kunni að vera erfitt að meta slíkt til fjár. Auðlindaréttur er nátengdur nýtingu náttúruauðlinda. Réttur þjóða til að njóta auðlinda sinna nýtur verndar í þjóðarétti. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 14. desember árið 1962 var samþykkt yfirlýsing nr. 1803 sem fjallar um sjálfstæði þjóða til að ráðstafa náttúruauðlindum sínum. Segir þar meðal annars að nýting náttúruauðlinda eigi að þjóna hagsmunum og auka velmegun fólks í viðkomandi ríki. Hefur þessi regla verið staðfest í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem voru fullgiltir af Alþingi í ágúst 1979, samanber auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda og tóku gildi hér á landi 22. nóvember 1979. Í 2. mgr. 1. gr. beggja samninganna segir orðrétt:

„Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti.“

Það var svo árið 2000 að svokölluð auðlindanefnd sem kosin var af Alþingi skilaði af sér álitsgerð. Hlutverk nefndarinnar var að fjalla um auðlindir sem eru eða kynnu að verða þjóðareign. Það eru meðal annars öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orka í rennandi vatni og jarðhiti. Taldi nefndin brýnt að mótuð yrði samræmd stefna og stjórn á nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi sem skapaði heilsteyptan lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að síðan þessi skoðun kom fram í skýrslu auðlindanefndar eru liðin 15 ár og er orðið tímabært að nú sé gengið hratt og vel í þetta mál og það gert að veruleika. Eins og ég sagði í ræðu minni í fyrra málinu hér áðan er það sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að sífellt er meiri og meiri ásókn í auðlindir okkar. Eftir að auðlindanefnd skilaði af sér árið 2000 þá hefur birst í sjónum í kringum landið, í landhelginni, ný auðlind, makríllinn, þannig að það er algjörlega orðið tímabært að þessi skref séu stigin. Eins og við vitum hafa samningar um makrílinn við nágrannaþjóðir okkar gengið illa þannig að með þessu erum við einmitt að tryggja yfirráð okkar sem þjóðar yfir auðlindum eins og t.d. makrílnum þegar hann kemur inn í lögsöguna, að þá sé tryggt að við höfum yfirráð yfir honum. Þannig að þetta er tímabært mál.

Ég ætla aðeins að fara hér yfir hvað hugtakið „auðlind“ er, en hugtakið er víðfemt og nær til margra þátta samfélagsins. Talið er að allir þættir náttúrunnar jörðin, lífríkið, vatn, sólarljós og loft, geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geta verið skilgreindar sem þjóðareign eins og t.d. fiskstofnar. Afskipti ríkisins ná samt til margra annarra auðlinda en þeirra sem beinlínis eru taldar þjóðareign. Samfélagið sjálft hefur tekið á sig að stuðla að verndun mikilvægra þátta umhverfisins svo sem hreinleika andrúmsloftsins og sett reglur um nýtingu dýrastofna og annarra þátta lífríkisins. Segja má að náttúruauðlindir geti verið beinn þáttur í neyslu, t.d. útivistarsvæði og veiðisvæði fyrir villt dýr. Þær auðlindir sem ekki teljast sem náttúruauðlindir eðli málsins samkvæmt eru t.d. mannauður, þekkingarkerfi, gagnagrunnar og önnur hliðstæð verkefni sem menn hafa skapað sjálfir.

Varðandi eignarhald á auðlindunum hefur því verið háttað með ýmsum hætti og oft á tíðum komið upp deilur í þjóðfélaginu um hvernig þeim málum skuli skipað. Segja má að deilur um það komi upp oft á ári og er ég þá að sjálfsögðu að vísa í fiskveiðistjórnarkerfið og nú síðast makrílfrumvarpið sem lagt hefur verið fram hér í þinginu sem margir setja sig upp á móti, þannig að sífellt er hér umræða í þinginu sem hverfist um það hvernig eigi að fara með þessar auðlindir. Í skýrslu fyrrgreindrar auðlindanefndar frá árinu 2000 var lagt til að tekið yrði upp nýtt ákvæði í stjórnarskrá þar sem náttúruauðlindir sem ekki væru háðar eignarrétti yrðu lýstar þjóðareign. Þessu hefur Framsóknarflokkurinn fylgt eftir með flokksþingsályktunum sínum að náttúruauðlindir skulu bundnar í stjórnarskrá.

Mig langar aðeins að fara yfir ákvæðið sem nefndin, auðlindanefndin, lagði til, en það er svohljóðandi:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.“

Virðulegi forseti. Ég sat í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hafði það hlutverk allt síðasta kjörtímabil að fjalla um hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni. Þar lagði ég áherslu á að náttúruauðlindaákvæðið færi inn í breytingartillögur að breyttri stjórnarskrá. Eftir mikla yfirlegu, forseti, þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þetta er langbesta tillagan að náttúruauðlindaákvæði í stjórnarskránni og styð þessa tillögu. Mikil vinna var lögð í þetta ákvæði á sínum tíma fyrir 15 árum þegar skýrslan var lögð fram og hefur hún svo sannarlega sannað gildi sitt og er eins og greinar í stjórnarskrá eiga að vera, hefur haldið gildi sínu öll þessi 15 ár. Það er því mjög mikilvægt að ákvæðið komi samhliða og ég veit að nú er að störfum stjórnarskrárnefnd sem er að skoða hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni sem mundu þá kannski taka gildi um næstu alþingiskosningar.

Þetta er nokkuð ítarleg þingsályktunartillaga því hér eru kaflar um leiðir til auðlindastjórnunar, hagfræðileg álitaefni sem snúa að auðlindum og auðlindarétti og svo jafnframt hér í lokin, í kafla VIII, hvernig gjaldtöku náttúruauðlinda er háttað hér á landi, en ég ætla ekki að fara yfir það í framsöguræðu minni. Ég vil að lokum segja að þessi tillaga til þingsályktunar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að fá færustu sérfræðinga á sviði auðlindaréttar til að semja frumvarp sem skilgreinir með tæmandi hætti hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru.“

Meðflutningsmenn með mér á þessu máli eru hv. þingmenn Karl Garðarsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir.

Virðulegi forseti. Ég geri það að tillögu minni að málinu verði vísað til umhverfisnefndar að aflokinni þessari umræðu. Er það von mín að það fái hraða, skjóta og vandaða umfjöllun í nefndinni þannig að þingsályktunartillagan taki gildi í vor og þá verði hægt að hrinda því í framkvæmd að fá okkar færustu sérfræðinga til þess að smíða frumvarp þar sem því verði gerð skil með tæmandi hætti hverjar náttúruauðlindir Íslands eru og hverjar flokkist sem slíkar og það verði bundið í lög.