144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það gæti vel komið til greina að hér gæti verið ráð að kjósa annaðhvort þverpólitíska eða faglega eftirlitsnefnd sem hefði aðgang að öllum upplýsingum í gegnum allt ferlið ef farið yrði að undirbúa sölu á eignarhlut. Þetta er víða gert í löndunum í kringum okkur, það er bara settur alveg sérstakur eftirlits- og tilsjónaraðili sem hefur aðgang að öllum upplýsingum á öllum stigum mála. Auðvitað getum við að einhverju leyti falið Ríkisendurskoðun slíkt hlutverk og höfum fleiri leiðir til að framkalla það. Ein leið væri sú að í staðinn fyrir að ráðherrann skipaði ráðgjafarnefnd væri einfaldlega sett sjálfstæð utanaðkomandi ráðgjafarnefnd eða eftirlitsnefnd sem færi yfir málin.

Svo vil ég aðeins minna á eitt sem vantar enn inn í þessa umræðu um armslengdarsjónarmiðin, kannski er það að einhverju leyti breytt í dag, að áhyggjurnar og tortryggnin voru ekki síst þær á árinu 2009 að í hendur bankanna og/eða ráðherrans ætti eftir að koma eignarhald á alls konar fyrirtækjum og þess vegna mætti pólitíkin hvergi koma (Forseti hringir.) nálægt því til þess að menn gætu ekki í gegnum bankana skammtað sér það hvert slík fyrirtæki og eignarhlutir færu.