144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir þegar ég bjó erlendis að því meira sem maður borgar þjóninum því meira truflar hann mann við að borða. Ég tek eftir því hérna að því áhugaverðari sem ræðan er því minni tíma hefur maður til þess að tala um hana.

Mér þykja þetta mjög áhugaverðar hugmyndir. Ég velti fyrir mér í sambandi við þetta fyrirbæri, samfélagsbanka, hvernig tryggt sé að hagsmunir stjórnenda bankans fari saman við þá leið að bankinn nái sínum markmiðum. Það er hægt að treysta því að fólk sé gráðugt, alla vega ef ég skil rétt hina kapítalísku hugmynd um að virkja græðgina, sem ég er reyndar ekki alveg fullkomlega sannfærður um að ég geri. En þegar kemur að samfélagsbankahugmyndum þá velti ég fyrir mér hvernig beri að gera hagsmuni stjórnenda bankans nákvæmlega þannig að þeir séu samofnir markmiðinu, sem er að bankinn sinni einhvers konar samfélagslegu hlutverki. Nú veit ég ekki hvernig er með tímann, virðulegi forseti, þetta er allt orðið hið vandræðalegasta mál. Ég ætla bara að hætta hér.

(Forseti (SJS ): Forseti þakkar hv. þingmanni fyrir það. Ég held að mínútan hafi verið komin, en það var eitthvert óstand á klukkunni, við skulum vona að þetta gangi núna.)