144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tel að það sé einmitt það sem skiptir máli eða gerir mikinn greinarmun á að þessi ráðgjafarnefnd gæti orðið í allt of miklu návígi og í raun og veru kannski á skrifborðshorni ráðherra hverju sinni, eins og hv. þingmaður nefndi. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa sjálfstæðan aðila sem ráðherra, hver sem hann er, hefur ekki möguleika á að vera neitt að vasast eða skipta sér af. Það eina sem ráðherra getur komið á framfæri til viðkomandi stjórnar, eins og það er í dag, er eigendastefna, en annars á stjórn Bankasýslunnar í dag að ráðleggja og koma með tillögur ef hún telur að ástæða sé til að skoða sölu einhverra eignarhluta, markaðurinn sé slíkur, en það er ráðherra sem ákveður hvort hann fari lengra með slíkt, en tillögurnar koma frá stjórn Bankasýslunnar. Um ráðgjafarnefndina eins og hún er kynnt hér í frumvarpinu er í raun og veru ekkert sagt um hvorki samskipti né boðleiðir eða eitt né neitt þar á milli. Nú er þessi valnefnd að störfum sem búið er þá að klippa þarna út og nú er bara milliliðalaust ráðgjafarnefndin og skipan í stjórnir bankanna. Ég tel að þetta sé miklu veikara batterí, ef ég má orða það svo, en er í dag.

Varðandi hagsýnu húsmóðurina held ég að þær lifi góðu lífi í þessu landi og mættu kannski fá að sýsla (Forseti hringir.) meira um peninga í stjórnsýslunni en gert er í dag.