144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það verður ekki sagt um þessa ríkisstjórn að hún sé átakafælin því að hún virðist vera í þeim gírnum að efna til ófriðar hvar sem hún kemur. Við þekkjum ófriðinn á vinnumarkaðnum. Í stað þess að reyna að lægja þær öldur með aðkomu ríkisvaldsins er þetta innkoman inn á það svið, í kjaradeilu í landinu, að koma með þessa heitu kartöflu inn í þingið sem vitað er að umhverfissamtök í landinu muni rísa gegn og stjórnarandstaðan mun rísa til varnar fyrir náttúru landsins sem ekki hefur aðra talsmenn en okkur sem hér erum inni og viljum standa vörð um náttúruna. Við viljum ekki láta brjóta gegn þeirri rammalöggjöf sem sett var á síðasta kjörtímabili og samstaða var um en núna á að fara að brjóta hana upp með þessum hætti og rífa kosti úr því faglega ferli sem þeir voru settir í og setja þá sisvona gegnum (Forseti hringir.) atvinnuveganefnd og inn í þingið. Nei, það er alveg furðulegt að þessi (Forseti hringir.) ríkisstjórn sjái aldrei hvernig vinna á með fólki, (Forseti hringir.) heldur vinnur hún gegn fólki.