144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég tel svo vera. Við getum tekið þetta dæmi um tengingu virkjunarinnar við dreifikerfið. Þar hafði nefndin áhyggjur af því að það væri óljóst hvar ætti að tengja þetta við dreifikerfið, að það lægi heldur ekki fyrir línustæði og hvar línurnar mundu liggja.

Nú vill svo til að í þessu tilfelli verður línan lögð í jörð, það liggur fyrir. Þær upplýsingar hafði nefndin. Það liggur líka fyrir að línan mun verða tekin inn í spennuvirkið á Flúðum, það þarf ekki að byggja nýtt spennuvirki fyrir þessa virkjun.

Þau atriði sem eru að mér finnst helstu ágreiningsatriðin um Hagavatnsvirkjun er hvort við erum að tryggja með þessu að það uppfok sem þarna hefur átt sér stað muni hætta eða hvort af virkjunarframkvæmdunum muni hljótast áframhaldandi uppfok. Það tel ég að sé atriði sem þurfi að skoða mjög vel í umhverfismati þessarar virkjunar. En það er mikill þrýstingur og vilji heimamanna eins og allir vita til þess að bæta lífsgæði á (Forseti hringir.) sínu svæði og geta aukið ferðamannaþjónustu (Forseti hringir.) á þessu svæði, m.a. með byggingu þessarar virkjunar. Mér finnst þetta (Forseti hringir.) atriði standa út af. Ég tel að það eigi heima í umhverfismati …