144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[18:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það steig hér í pontu hv. þingmaður meiri hlutans og sagði að við værum að silast áfram inn í efnislega umræðu. Hv. þingmaður nefndi hins vegar oftast í ræðu sinni það sem fyrri ríkisstjórn gerði. Það er ágætt að halda því til haga að lögfræðiálit eða úrskurður virðulegs forseta kemur gjörðum fyrri ríkisstjórnar nákvæmlega ekki neitt við. Það hvernig þingsköp virka getur varla afmarkast af því sem fyrri ríkisstjórn gerði. Sömuleiðis verður maður svolítið þreyttur á rökunum hér á bæ, virðulegi forseti, þessum „hann byrjaði“-rökum, sem eru að jafnaði notuð á leikskólum landsins, að af því að einhver annar byrjaði eitthvert ferli sé sjálfkrafa réttlætanlegt að haga sér á sama hátt eða jafnvel verr. En það er einmitt akkúrat öfugt. Hæstv. núverandi ríkisstjórn ætti að sýna miklu betri hegðun en hún telur fyrri ríkisstjórn hafa gert. Það eru engin rök að segja að fyrri ríkisstjórn hafi gert hitt eða þetta, fyrir utan það að það er annað að setja hluti í biðflokk út af varúðarsjónarmiðum en að setja hlutina í nýtingarflokk. Það er efnislega annað. (Forseti hringir.) Einnig er það sem er að gerast hér öðruvísi í eðli sínu en það sem gerðist á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) Við höfum greinilega ekki nægan tíma til að ræða þetta. Ég legg aftur til að fundi verði frestað þar til búið er að tala um þetta með virðulegum forseta þingsins.