144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Forseta mátti vera ljóst að það yrði hér strögl varðandi þetta mál af hálfu stjórnarandstöðunnar sem var búin að boða það að hún gæti verið hér fram á vor ef svo bæri undir vegna þessa máls. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Þetta eru frekjukarlastjórnmál þar sem menn ætla bara að ráða af því að þeir telja sig geta gert það. Þeir hunsa ýmis álit um túlkun laganna, meðal annars frá ráðuneytum, og halda því fram að þeir séu betur til þess fallnir til að hafa á þessu skoðun, sem er ígildi þeirrar rammaáætlunar sem við höfum verið að reyna að fara eftir. Þeir þurfa ekki að leita til verkefnisstjórnar af því að þeir hafa hið faglega mat í sínum höndum, þeir geta ráðið þessu og hafa miklu meira um þetta að segja en þeir aðilar sem eru þó til þess bærir. Um þetta snýst þetta.(Forseti hringir.)

En ég spyr hæstv. forseta: Eru engin önnur mál sem ríkisstjórnin getur komið með hingað inn (Forseti hringir.) eða finnst forseta þetta í lagi, vitandi það að fundir næstu daga geta orðið eins og þessi? Við förum ekki dult með það.