144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef svolítið verið að velta vöngum yfir því hvers vegna meiri hlutinn og virðulegur forseti vilja endilega hafa þetta mál á dagskrá. Ég átta mig hreinlega ekki á því vegna þess að það liggur alveg fyrir að þetta er eitt umdeildasta mál í nútímastjórnmálasögu Íslands. Það var fyrirséð að hér yrði mikið talað um málið, eðlilega, að það yrði mikið af deilum o.s.frv. Það er deilt um allt, frá upphafi til enda, hvað varðar formið á því. Dagurinn í dag hefur verið þannig að maður hefur þurft að skrifa heilmikið til að komast að því nákvæmlega hvað hefur klikkað hér í öllu formi. En steininn tók úr þegar hæstv. ráðherra lýsti því yfir í fjölmiðlum að hann væri andvígur málinu en við í minni hlutanum, fyrstu 12 mælendur á mælendaskrá, eigum að tala hver við annan um það án þess að fá nein viðbrögð frá hæstv. ráðherra, væntanlega næstu fjóra klukkutímana og væntanlega á morgun og væntanlega á föstudaginn. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér til hvers. Hvers vegna erum við hérna? (Forseti hringir.) Hvað eigum við að ræða? Á meðan það vantar hæstv. umhverfisráðherra höfum við ekkert að gera hérna.