144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég kom hingað niður eftir nokkuð spennt, svo ég noti nú orð sem hér hefur fallið, til að hlusta. Ég varð þess áskynja að mín hafði verið vænst hér og menn vildu gjarnan að ég kæmist sem allra fyrst að. Ég hef setið hér prúð og stillt í hartnær þrjár klukkustundir. Spenningurinn var nú ekki meiri að heyra orð mín, enda skal ég reyna að stytta mjög mál mitt og geri mér algerlega grein fyrir því að ég er ekki að flytja neina Gettysborgarræðu hér.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar, mér finnst það vera svolítið sérkennileg umræða þegar menn eyða tímanum þetta mikið í fundarstjórn forseta. Þó að hér hafi verið fluttar þrjár ágætar málefnalegar ræður hafa menn komið hér upp hvað eftir annað í allan dag, trekk í trekk, bara út af fundarstjórn forseta. Það er ekki það sem mér hugnast.

Annað sem mig langar að segja í upphafi er að mér finnst máttur sjónvarpsfrétta mjög mikill, ég hef orðið þess áskynja hér vegna þess að þrisvar sinnum hef ég staðið í þessum ræðustól síðan ég tók við því embætti sem ég gegni nú og sagt nákvæmlega það sama og ég sagði við báðar sjónvarpsstöðvarnar. Reyndar er það nokkuð klippt til og getur þess vegna verið að það hafi ekki skilist með sama hætti. En þrisvar sinnum hef ég staðið hér í óundirbúnum fyrirspurnum, síðast til að svara hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur bara fyrir viku eða tíu dögum síðan, en menn hlusta greinilega ekkert á það sem sagt er hér á hv. Alþingi eða eru ekki viðstaddir. Ég hef einnig komið í sjónvarpið, í Kastljós og viðtöl og eflaust hef ég komið fram í fréttum og sagt nákvæmlega sömu skoðun og hér. Ef menn trúa ekki geta þeir flett því upp. Þingræður eru skjalfestar og ég held að það sé líka hægt að fá efni í sjónvarpinu. Ég var kölluð í Kastljós viku eða tíu dögum eftir að ég tók við embætti. Ég var þá þegar spurð út í þetta mál, að nú væri það til umfjöllunar og hefðu komið fram hugmyndir um nokkuð marga virkjunarkosti. Þá sagði ég að ég gæti sæst á það eða fundist að það hefði verið eðlilegt að við færum fram með alla þrjá virkjunarkostina í Þjórsá vegna þess að verkefnisstjórn rammaáætlunar í 2. áfanga hafði rannsakað það og sett þá fram nákvæmlega þessa kosti. Það sagði ég þegar í janúar og ég hef endurtekið það áður hér á Alþingi. Ég hef ekkert breytt um skoðun.

Svo held ég að það hljóti að vera hér einhverjir í salnum sem muna eftir því að í desember mætti ég á fund atvinnuveganefndar og gat um þessa skoðun mína þar og var þá ekki búin að taka við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra, þannig að ég hef ekki breytt um skoðun þó að ég fari í aðra kápu.

Ég vil líka taka það fram að þegar ég les nefndarálitið frá meiri hluta atvinnuveganefndar rek ég augun í allan þennan fjölda af gestum. Ég hef aldrei séð að komið jafn margir gestir fyrir nefnd og í þessu máli þannig að ég sé ekki annað en að bæði meiri og minni hluti hafi getað kynnt sér málin mjög vel. Ég dáist eiginlega að öllum þessum gestafjölda á þeim tíma sem nefndin gaf sér til að fara málefnalega yfir þau verkefni sem fyrir henni lágu. Menn töluðu meira að segja um að þingmenn hefðu flutt sömu ræðuna oft og ég er eiginlega að hugsa um að gera það núna, af því að ég með útprent úr einhverri síðustu ræðu minni um þetta mál, að flytja hana orðrétt til þess að þið getið heyrt að ég hef ekki breytt um skoðun.

Ég byrja á því að segja að í upphafi þessa árs sé að hefjast nýtt ferli um rammann og að ég horfi mjög til þeirrar vinnu og ég vilji gera hana nákvæmlega eins og lög og reglugerðir segja til um. Ég var að taka við því verki og ég legg metnað minn í það og hef talað þannig við formann verkefnisstjórnar. Við hittumst reglulega og svo ég upplýsi það hér eigum við meira að segja fund á morgun og förum yfir málin og skoðum hvað er í gangi.

Orðrétt vil ég segja: Ég vil ekki horfa of mikið til baka og ég veit að núna er atvinnuveganefnd að starfa í þessu umdeilda máli. Ég ætla ekki að gefa mér neitt um það sem fram fer á nefndarfundum og vil bíða eftir því að það komi hingað í þingsal. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og get endurtekið það að mér hefði fundist í lagi þótt atvinnuveganefnd hefði sett kostina þrjá í Þjórsá fram vegna þess að þeir hafa þó allir að mestu verið fullrannsakaðir. Menn sem eru nú að störfum í verkefnisstjórninni hafa sagt að það hefði vantað hársbreidd upp á að þeir hefðu getað verið búnir að skila öllum þremur kostunum af sér. Það hef ég sagt úr þessum ræðustól og get sagt það hér áfram þannig að þarna var ég að endurtaka þetta í annað eða þriðja sinn. Og ég vona svo sannarlega að við getum núna breytt um vinnuaðferðir og horfum eitt og hálft ár fram í tímann og skoðum kosti til beggja handa og virðum síðan þær ákvarðanir sem teknar verða. Það er óskastaða mín að þannig getum við unnið að rammanum, 3. áfanga seinni hluta hans og ég vona að það muni skila árangri á haustdögum 2016, eftir um það bil eitt og hálft ár.

Rammaáætlun er vissulega margslungið hagsmunamat og ólík sjónarmið takast þar á, en reynt er að leiða saman fagmenn úr ólíkum greinum og vega saman þessi ólíku sjónarmið. Það hefur náttúrlega komið fram hér í dag að það er ekkert lítið verkefni að kljást við þetta mál og því ekkert óeðlilegt að um það séu nokkrar deilur.

Varðandi Hagavatnsvirkjun finnst mér að það hefði þurft að leggja fram sérstaka þingsályktunartillögu um hana ef það mál hefði verið tekið fyrir hér. En jafnframt vil ég geta þess að til mín hafa komið hópar sem hafa barist mjög fyrir Hagavatnsvirkjun — mjög, og telja sig mikla umhverfissinna. En síðan hafa auðvitað komið hingað hópar og fólk með alveg gagnstæða skoðun. Ég hef eiginlega varla heyrt um öllu meiri öfgar í hópi þess fólks sem telur sig bera náttúruna fyrir brjósti. Ég veit um mismunandi sjónarmið fólks sem er kannski ekki með sömu sýn á hlutina, maður veit það fyrir fram, en þegar hópur fólks sem er í náttúruverndargeiranum kemur til manns verður maður svolítið hugsi yfir því. En virkjunin er náttúrlega ekki búin að fá þær rannsóknir sem ég hefði kosið að hún fengi, enda eru menn ekki enn komnir að sameiginlegri niðurstöðu.

Hv. þm. Kristjáni Möller fannst leiðinlegt að ég skyldi ekki fara í andsvar en ég var eiginlega að bíða eftir því að ég kæmist að og mundi flytja þessa tölu mína. Þess vegna beið ég. Það var ekki út af því að mér fyndist það sem hann beindi til mín eða það sem hann ræddi í sinni ágætu ræðu ekki vera þess virði að svara því, síður en svo. Hv. þingmaður spurði meðal annars um hvort ég mundi beita mér fyrir verndarflokki, fyrir friðunum, að meiri áhersla yrði lögð á það. Hann talaði líka um að orkunýting og vernd ætti að hafa sama vægi, sem ég tek undir. Ég held að verndin eigi alls ekki að hafa síðra vægi, svo því sé til skila haldið. Vitaskuld þarf að taka á þeim málum og ég hef líka sagt það hér að mér þyki það leitt að ekki hefur gengið nógu vel með friðlýsingar almennt. Það eru nokkuð margar friðlýsingar í vinnslu hjá Umhverfisstofnun og þess vegna hef ég leyft mér að segja það úr þessum ræðustól, svo ég reyni nú að vera mjög sammála sjálfri mér, að ef til vill væru of margar friðlýsingar undir og væri betra ef við mundum einbeita okkur að sérstökum verndaráætlunum eins og þeim sem vísað hefur verið áfram til verndunar hjá verkefnisstjórn. En ég get alveg fullvissað hv. þingmann og aðra þingmenn um að unnið er að þessu og það er fullur hugur hjá ráðuneytinu og ekki síður hjá Umhverfisstofnun að vinna þetta verk og helst auðvitað hraðar og meira og verður reynt að fá til þess fé.

Ég veit ekki hversu lengi ég á að halda áfram. Ég sagði að ég mundi reyna að stytta ræðu mína af því að húmorinn hefur aðeins horfið á þessum klukkustundum miðað við hvernig hann var í upphafi. En ég vil ítreka að nú í upphafi árs hófst nýtt ferli varðandi vinnu verkefnaáætlunar sem er betur úr garði gert en unnt hefur verið að gera hingað til vegna þess að við getum sett faghópana og allt annað í gang. Núna erum við í fyrsta skipti að vinna samkvæmt þessum lagarömmum og gerum það eins vel og unnt er. Ég vona að þingið sé spennt eins og ég, svo ég noti nú það orð aftur, fyrir því að það gangi vel og væri gaman að skynja að það hafi skilað vinnu sinni eftir eitt og hálft ár.

Annað varðandi orkumál, mig langar að segja frá því að á ríkisstjórnarfundi í morgun var lögð fram skýrsla frá þingsályktun sem hér hafði verið flutt um sjávarfallaorku og ölduorku og annað, hvernig við gætum nýtt þá orku sem býr í hafinu okkar. Mér leist mjög vel á það sem þar var sett fram. Það er enn þá mjög dýrt. Þarna finnst mér að við eigum að hefja öflugar rannsóknir í meira mæli. Ég er sannfærð um að það hlýtur að vera framtíðin. Það er minna inngrip í náttúruna og við eigum alveg nóg af þessari orku. Ég nefni sem dæmi að við vorum ansi lengi að taka við okkur varðandi vindorkuna og höfðum ekki trú á henni, við töldum að hún væri dýr, og vissulega er hún dýr eins og allt annað sem snýr að beislun orku. En hún hefur skilað svo margfalt meiri ávinningi en menn töldu að mögulegt væri í upphafi en auðvitað er hún ekkert alger draumur. Mér finnst til dæmis vera umhverfismengun af þessum spöðum. Reyndar eru þeir orðnir miklu lágværari en áður var, en ég nefni vindorkuna samt sem dæmi af því að það var rætt hér á landi í langan tíma að hún mundi ekki gagnast okkur og væri of dýr. En vindorkan skilar sem sagt gríðarlegum árangri núna og einhvern veginn er ég sannfærð um að sjávarorkan verður framtíðin. Þá þurfum við ekki að leggja mikið land undir eða gera óafturkræft inngrip í náttúru landsins.

Ég ætla að leyfa mér í galgopahætti að lokum að segja, af því að nú er farið að líða að miðnætti: Hvar á landinu er minnst um eldfjöll og hvar eru jarðskjálftar ekki eins tíðir og víða annars staðar? Þar finnst mér að við eigum að virkja sjávarorkuna. Ég bendi ykkur á Breiðafjörðinn og meira að segja datt mér í hug þegar ég var að leika mér eitthvert kvöldið hvort ekki væri hægt að grafa sig í gegnum eiðið yfir í Húnaflóann, sem er eitthvað um tíu kílómetrar, og væri hægt að virkja orkuna þarna í báðar áttir, svo ég horfi á Vestfirðinginn.