144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verkefnisstjórn um rammaáætlun er ráðgefandi nefnd. Nú vil ég gjarnan að þingmaðurinn hlusti. Það eru stjórnvöld, það er umhverfisráðherra sem setur á laggirnar verkefnisstjórn um rammann og hún hefur ákveðna virkjunarkosti til að fjalla um og ég hef sagt það áður að hún er nokkurs konar skilvinda fyrir það sem á að senda í vernd og senda í nýtingu. Þessi nefnd er ekki stjórnvald, hún er ráðgefandi nefnd fyrir ráðherra. Ég var spurð spurninga hér um hvort ég hefði tekið sömu ákvörðun og forveri minn sl. haust og ég sagði að ég hefði talið líklegt að ég hefði gert það. Ég hefði farið eftir ráðleggingu nefndarinnar. Ráðleggingu, það eru ekki lög, það er ráðlegging sem nefndin kemur með til ráðherra. (Forseti hringir.) Ég get ekki sagt nákvæmlega hvað maður hefði gert aftur í tímann en mér finnst líklegt að ég hefði gert það, til þess að halda frið. Ég er þannig persóna. (Forseti hringir.) Jafnframt segi ég að mér finnst samt ekki óeðlilegt þó að nefndin tæki þá ákvörðun að senda fleiri kosti eins og kostina í Þjórsá áfram.