144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:46]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eins saknaði ég úr ræðu hæstv. umhverfisráðherra áðan, sem ég verð að gera að umtalsefni hér. Því er lýst mjög ítarlega í 9. og 10. gr. laga um vernd og nýtingu, þ.e. í rammaáætlun, hvert verksvið verkefnisstjórnarinnar er og hvernig hún eigi að haga vinnu sinni. Það er gríðarlega flókið og umfangsmikið umsagnarferli þar sem menn kalla eftir viðbrögðum hagsmunaaðila sem meiri hluti atvinnuveganefndar lítur algjörlega fram hjá þegar kemur að fjórum virkjunarkostum. Ekkert samráðsferli fer fram viðlíka því sem lögin gera ráð fyrir. Til að bæta gráu ofan á svart eru ekki einu sinni tvær umræður um þessa virkjunarkosti í þinginu, heldur bara síðari umr. um þingsályktunartillögu. Það er ófullnægjandi og gersamlega í andstöðu við bæði (Forseti hringir.) lagabókstafinn og anda laganna.