144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ef hv. 7. þm. Suðurk. telur þessa málsmeðferð vera mjúkar línur þá veit ég ekki hvað hann mundi kalla harðar línur. Sömuleiðis ef þetta eiga að heita náttúruverndarsinnar þá velti ég fyrir mér hvað stóriðjusinnar eru.

Það er ekkert hægt að koma í pontu og láta eins og það sé einhver fræðilegur möguleiki á því að ná sátt um þetta mál nema með þeirri aðferð sem ákveðið var að fara eftir á sínum tíma, nefnilega rammaáætlun. Á meðan þessi leið þykir tæk af hv. þingmönnum meiri hlutans verður deilt um formið á henni.

Ég hef ekki einu sinni mótað afstöðu mína til allra þeirra virkjunarkosta sem hér hafa verið nefndir. Ég er reyndar á móti því að virkja Urriðafoss en ég mundi alveg vilja skoða aðra kosti betur. En það er einmitt málið, ég vil skoða þá betur í samræmi við rammaáætlun. Það þýðir ekkert að láta eins og hérna séu náttúruverndarsinnar á ferð, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, það stenst enga skoðun.