144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[11:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það sem ég hef áhyggjur af í tengslum við þetta mál er formleysið. Formleysi einkennir miklu fleira mál en bara þetta hjá þessari ríkisstjórn. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi samgönguáætlun sem er bara horfin, lögbundin áætlun. Ef við erum að tala um eftir hverju fólk um allt land er að bíða þá er það meðal annars að bíða eftir henni. Formleysið er algjört. Hér eru boðuð frumvörp eins og um stöðugleikaskatt fyrir þinglok — hvar er það frumvarp? Það er ekkert samráð um dagskrá þingsins. Þeim leikreglum og formum sem við höfum samþykkt að fylgja er ekki fylgt. Þegar staðan er orðin sú að við þurfum að deila um í hvaða nefnd málum skuli vísað út af þessu formleysi oftar en einu sinni, oftar en tvisvar, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af vinnu okkar hér á þingi. Það er full ástæða til að ræða það undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Ég hef satt að segja á tilfinningunni að hér sé ekki um stjórnkænsku að ræða heldur algjört ráðaleysi þar sem (Forseti hringir.) hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar ná að taka þingið í gíslingu (Forseti hringir.) af því það veit ekki nokkur maður hvert þessi meiri hluti stefnir í nokkru máli, síst í þeim vinnudeilum sem nú standa yfir (Forseti hringir.) og allir eru að bíða eftir að heyra eitthvað um en ekkert heyrist.