144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er virðingarverð afstaða að taka upplýstar ákvarðanir, það er jú mikilvægt grunngildi. Ég velti þó fyrir mér, ef þessi tillaga næði fram að ganga, hvernig við mundum halda áfram með rammaáætlun og óska eftir viðhorfum allra um málið. Ef núverandi stjórnarmeirihluti telur að á fyrra kjörtímabili hafi sáttin verið rofin og minni hlutinn hér telur sáttina rofna með þessum aðgerðum meiri hlutans, þá velti ég fyrir mér hvað sé eftir af rammaáætlun. Hvernig horfum við fram á veginn? Hvernig getum við meðhöndlað þennan málaflokk á annan hátt en með stórfelldu ósætti við hvert fótmál, við hverja einustu ræðu um hvern einasta hlut. Það er það sem ég hef í sjálfu sér mestar áhyggjur af hvað þetta varðar. Mér heyrist það sama vera uppi hjá hv. þingmanni. En ég spyr bara vegna þess að ég veit það ekki. Hvernig getum við horft fram á við? Ef þetta á að virka, ef þetta á að ganga eftir, hvað gerum við næst?