144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það lýsir nú því rökþroti sem hæstv. forsætisráðherra og meiri hluti nefndarinnar eru í að þurfa að reyna að halda því fram að Alþýðusamband Íslands styðji þessar fráleitu tillögur þegar fyrir liggur skriflega af hálfu Alþýðusambandsins að það gerir það ekki.

Hitt lýsir svo enn þá betur hinni erfiðu stöðu málsins að hæstv. umhverfisráðherra þori ekki að vera við umræðuna. Maður hlýtur að spyrja, hæstv. forseti, þegar ekki er orðið við ítrekuðum beiðnum um að ráðherrann sé hér, hefur hæstv. umhverfisráðherra sagt af sér? Er ástæðan fyrir því að Sigrún Magnúsdóttir er ekki í þingsalnum að hún hefur áttað sig á því hrikalega vantrausti sem lýst hefur verið í hennar garð af félögum hennar og formanni hennar þingflokks og af ríkisstjórninni með því að valtra hér yfir tillögur umhverfisráðherra, fara margfalt lengra en ráðherrann taldi og forveri hennar úr sama flokki með því að fara beint gegn lögfræðilegu áliti ráðuneytisins sem liggur fyrir þinginu? Er umhverfisráðherra (Forseti hringir.) á landinu eða hefur Sigrún Magnúsdóttir sagt af sér? Er það þess vegna sem hún er ekki hérna?