144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég treysti hæstv. forseta langbest til þess að stýra þessu þingi og ég held að reynslan sýni að það leiðir ekki til mikillar aukningar á afköstum þingsins þegar hv. þm. Jón Gunnarsson kemur og býðst til þess að taka að sér fundarstjórnina. Fyrir mér er það eiginlega alveg nóg, og ég er viss um það að hv. þingmaður hefur nóg með það, að vera eins konar yfirorkuráðherra og vera farinn að skipa bæði framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu fyrir í þeim efnum. (Gripið fram í.)

Ég kem hins vegar hingað, herra forseti, til þess að inna eftir, í framhaldi af orðum hæstv. forsætisráðherra í fjölmiðlum, hvort búið sé að taka einhverja ákvörðun um að hafa sumarþing. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann telji ekki næsta létt ef það er nú samkomulagsvilji á báða bóga að ljúka þingi á áætlun. Ég tek eftir því að hæstv. forseti hefur tekið upp þann hátt að boða til funda klukkan tíu á morgnana eins og jafnan þegar bjartsýnn forseti gerir ráð fyrir því (Forseti hringir.) að hægt verði að ljúka þingstörfum á réttum tíma.