144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

rammaáætlun og gerð kjarasamninga.

[14:39]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér þóttu nú mikil tíðindi í þessari seinni ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar því að nú snýst umræðan ekki lengur um formið, innihaldslaust hjal um formið. Nú lýsir hv. þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, því yfir að hann sé á móti þessum virkjunaráformum, hann sé á móti því að virkja meira, það þurfi ekkert að virkja. Það eru tíðindi frá Samfylkingunni, virðulegur forseti, (Gripið fram í.) og gengur algjörlega í berhögg við það sem sá flokkur talaði fyrir, meira að segja á síðasta kjörtímabili þegar hann var í (Gripið fram í.) stjórnarsamstarfi með Vinstri grænum. Það gengur í berhögg við samkomulag þeirrar ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins, gengur í berhögg við það sem ráðherrar flokksins töluðu fyrir á sínum tíma. Nú er komin ný stefna Samfylkingarinnar: Ekki fleiri virkjanir.

Það er alveg ljóst (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) að það þarf fjölbreytilegt atvinnulíf, rétt eins og hefur verið að byggjast upp hér á landi á undanförnum árum áfram, en það þarf líka orku. Fjölmörg verkefni bíða fyrst og fremst eftir nauðsynlegri orku og það umhverfisvæn verkefni, tæknileg verkefni, framtíðarverkefni.