144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að benda skilmerkilega á að nú hefur umræða um fundarstjórn forseta, eftir því sem hún segir og ég hef enga ástæðu til að rengja orð hennar um það, staðið í tvo og hálfan vinnudag. Það er afleiðing gerða stjórnar þingsins. Það er afleiðing þess að sett er fram breytingartillaga sem stenst engan veginn lög um það hvernig á að fara með rammaáætlun og eina leiðin sem við í stjórnarandstöðu höfum til að mótmæla því er að vekja athygli á því enn og aftur. Nú höfum við vakið athygli á því í tvo og hálfan vinnudag og við munum halda því áfram ef við þurfum, vegna þess að úrskurður forseta þingsins er huglægur, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur margsinnis bent á, af því að forseti þingsins er ekki hlutlaus í þessu máli.