144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:35]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki heyrt stjórnarþingmenn gráta hérna, ég held að það séu einhverjir aðrir sem sjá um þann grátkór.

Hér hefur verið spurt hvað liggi á, eins og það liggi ekkert á að koma þessum virkjunum í gang. Það liggur á að fara að nýta auðlindir landsins til að auka velferð svo að fólkið geti haft það betra, svo að við getum hækkað kaupið. [Hlátur í þingsal.] Hv. þm. Guðbjartur Hannesson talar um að við séum að rjúfa einhvern samning. Við erum að setja í rofabarð. Við erum að bæta fyrir það rof sem varð á síðasta kjörtímabili. Við erum að færa þá kosti sem voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Við erum að færa þá úr biðflokki í nýtingarflokk aftur eins og faglegir hópar mæltu með. Að heyra svo hv. þingmann af Suðurnesjum hvetja til þess að fara að virkja Reykjanesfólkvanginn, (Forseti hringir.) virkja náttúruperlur Reykjaness að fullu, (Gripið fram í.) finnst mér grátlegt.