144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:01]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum bara ósammála verkefnisstjórn rammaáætlunar, við meiri hluti atvinnuveganefndar, sagði hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson. Við erum bara ósammála, farið var í eitthvert faglegt mat en niðurstaðan skiptir engu máli. Við erum búin að uppfylla það, kíkja í boxið, já, faglegt mat hefur farið fram en okkur kemur sú niðurstaða bara ekkert við því að við ætlum að gera eitthvað allt annað.

Það er náttúrlega ótrúlegt að horfa upp á þetta, ótrúlegt. Þá á hv. þm. Jón Gunnarsson að segja verkefnisstjórn rammaáætlunar að gera svo vel og pakka niður og fara til baka til fyrri starfa, af því að verið er að gera það fólk að fíflum, það er verið að gera okkur öll að fíflum með því að láta það halda að þessi vinna skipti einhverju máli. Þið eigið þá að vera grímulaus í því sem þið eruð að gera, að taka ákvarðanir um virkjanir bara svona eftir hentisemi ykkar.