144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir það að æskilegt væri að fá hæstv. forsætisráðherra til að svara fyrir það þar sem hann hefur verið staðinn að því ósannsögli sem hann flutti hér.

Mig langar að spyrja, af því að fram kom hjá hv. formanni atvinnuveganefndar að hann teldi ekki að hér væri um ólögmæta aðgerð að ræða vegna þess að hér hefði verið lögð fram ný breytingartillaga í dag. Má þá líta svo á að hann telji að við höfum verið að ræða ólöglega tillögu fram til þessa, ef ný tillaga dugði til þess að hann teldi að tillagan væri ekki lögbrot?

Svo er það líka umhugsunarvert hvað þarf til dæmis margar Skrokkölduvirkjanir til að auka þjóðartekjurnar og hvað þær verði miklar til viðbótar til að bæta hag almennings. Væri ekki áhugavert að hæstv. forsætisráðherra mundi útskýra það fyrir okkur áður en við fórnum þeim náttúruverðmætum sem hér eru undir?