144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er lágmark að þeir sem greiða atkvæði með kvöldfundi séu hér. Ég veit ekki hvað skal segja, menn verða að standa við það sem þeir biðja um, en mig langar að biðja hæstv. forseta að gefa mér stöðuna á því hvar forsætisráðherra er. Ég óskaði eftir að hann kæmi til fundarins til að svara fyrir það sem aðilar vinnumarkaðarins sögðu í kvöldfréttum, að það mál sem hér er til umræðu hefði ekkert með gerð kjarasamninga að gera, kæmi henni ekki við, hefði ekki borið á góma í þeim umræðum þrátt fyrir að forsætisráðherra héldi því fram. Ég óskaði eftir því að hann kæmi til fundarins. Mér var tjáð að boðum yrði komið til hans og nú vil ég fá svör við því hvar hann er og hvenær hann muni koma til fundarins til að gera okkur grein fyrir því hvað fólst í orðum hans og hvers vegna þau eru svo langt frá orðum aðila vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) sem hann fullyrti að væru að gera eitthvað allt annað en þeir eru í raun að gera.