144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við eigum öll að reyna að bera virðingu hvert fyrir öðru hér í þessum sal. Það fer stundum lítið fyrir því en ef einhverjum finnst á sig hallað og þykir á sér brotið, sérstaklega varðandi persónuvernd sína í persónulegum samtölum, mæli ég frekar með því að í staðinn fyrir að koma hér upp og segja einhverja brandara biðjist menn afsökunar á því hafi menn særst vegna orða þingmannsins.

Herra forseti. Ég hef ekkert út á ágæta fundarstjórn forseta að setja, ég vona að ég fái hljóð eftir þetta innlegg mitt, en mæli með því að við tökum til við dagskrána, þá dagskrá sem forseti hefur lagt hér fram, og við höldum áfram að ræða um rammaáætlun og vek athygli á því að mér finnst mjög sérstakt að menn komi hingað upp og haldi því fram að þingið megi ekki leggja fram breytingartillögur við mál eins og stöðugt er verið að gera í þessu máli. Fram kemur í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum varðandi rammann að stefnumótun um nýtingu (Forseti hringir.) og verndun landsvæða til orkuvinnslu verði í höndum Alþingis.