144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Sem einn af fulltrúum hinnar vondu stjórnarandstöðu langar mig að benda á að hæstv. forsætisráðherra lét ekki ná í sig í allan gærdag, þegar kallað var eftir nærveru hans hér. Við vorum að fjalla um það, sem kom í ljós að voru ósannindi úr munni hæstv. forsætisráðherra, að forsenda kjaraviðræðna leyndist í frekari virkjunaráformum sem birtust í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar.

Mér finnst með ólíkindum að hæstv. ráðherra hafi ekki málefnalegri innkomu hér á þingi í dag en þá sem blasti við okkur áðan. Ég verð að segja það, forseti, að ég skil ekki alveg verklagið á þessum vinnustað. Ég skil ekki verklag forsetans. Það er vitað að þetta mál heldur ekkert áfram.

Mig langaði bara að spyrja forseta þingsins hvort ástæðan fyrir þessu (Forseti hringir.) verklagi sé sú að ríkisstjórnin þurfi að vinna sér inn tíma til að koma með einhver mál hingað inn á þingið. (Forseti hringir.) Hún er ekki komin með nein af sínum málum hér inn á þingið, ekkert sem skiptir einhverju máli.