144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:09]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Björt framtíð er að ég hygg eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur það á stefnuskrá sinni að Ísland vinni Eurovision. Ég held að það sé dæmi um stefnumál sem við gætum náð þverpólitískri samstöðu um í þingsal.

Þessi umræða öll um fundarstjórn forseta hefur af minni hálfu, og allra annarra hálfu að ég held, snúist um fundarstjórn forseta, hún hefur snúist um það hvernig við teljum að fundi væri betur stjórnað hér. Ég held að í pólitík séu mörg verkfæri til í boxinu. Ég upplifi þetta svolítið undanfarið eins og aðeins sé verið að nota þvermóðsku og stífni. Ég held að í upphafi þessa máls hafi verið hægt að setjast niður og það hryggir mig að enn skuli ekki vera búið að setjast niður og reyna kerfisbundið að leita sátta, reyna að sætta ólík sjónarmið í þessu og reyna að finna einhverja lausn. Ég hef trú á því að hún sé til. Hún er kannski ekki (Forseti hringir.) lausn sem allir sætta sig jafn mikið við en hún er alla vega lausn á málinu og kemur í veg fyrir að við séum (Forseti hringir.) hérna í ágreiningi og eyðum tímanum í vitleysu.