144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[14:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum markaðslausnir í sjávarútvegsmálum. Við vinstri græn höfum ekki verið fylgjandi óheftum markaðslögmálum í þessari grein fremur en mörgum öðrum greinum, en við viljum að það sé greitt gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind eins og auðlindinni í sjónum. Ég tel að við getum nálgast það með ýmsum hætti hvernig við úthlutum auðlind eins og makrílnum og gefið mönnum kost á að nýta þá auðlind eðlilega. Ég tel hægt að leigja makrílinn út og tengja leiguna afurðaverði og að auðvitað eigi líka að greiða eðlileg veiðigjöld fyrir makríl jafnt sem aðrar tegundir í sjónum og það skili sér til þjóðarinnar.

Við höfum lengi deilt um hverjir eigi að hafa aðgengi að auðlindinni. Mér finnst jafn mikið réttlætismál og það að þjóðin fái arð af auðlindinni að Íslendingar geti nýtt sjávarauðlindina og það sé ekki allt of mikil samþjöppun eins og vissulega hefur verið undanfarin 20 ár. Mér eru ofarlega í huga mótmæli norskra sjómannasamtaka gagnvart því að stórfyrirtæki væru að kaupa upp kvóta í lögsögu þeirra og þau bentu á íslenska kvótakerfið, sem væri ekki til fyrirmyndar, að þar hefðu heilu byggðarlögin verið skilin eftir á köldum klaka. Þau bentu líka á það, sem ég tek alveg undir, að þó að við viljum hagkvæman rekstur megi hann aldrei verða markmið í sjálfu sér (Forseti hringir.) í engum tengslum við samfélag fólks sem lifir af fiskveiðum. Ég kem inn á fleiri atriði í seinni ræðu.