144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þarf ekki hv. þm. Ásmund Friðriksson til að segja mér til um minn rétt. Ég hef sem þingmaður rétt til að krefjast umræðu um hvaðeina sem ég vil við ráðherra, ef sérstök tilefni gefast. Sá réttur er veittur mér í þingsköpum.

Ég kem aðallega upp til að taka að endingu undir það, með þeim stallsystkinum hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og Árna Páli Árnasyni, að vitaskuld þarf að ræða þá atburði sem hér hefur verið upplýst um, þ.e. ólögmæta einkavæðingu hæstv. menntamálaráðherra á skólakerfinu með sérstökum hætti. Það er ekki hægt að þingið láti sér nægja hálftíma til þess. Hvort til þess þarf tvær, þrjár eða fjórar klukkustundir veit ég ekki, það þarf að vera lengri umræða en endranær vegna þess að það eru margir þingmenn sem hafa áhuga á að ræða þetta því að þetta er algert prinsippmál. Nú er komið í ljós, samkvæmt áliti lögmanns sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur margsinnis notað, að það er ekkert um annað að ræða en lögbrot hjá hæstv. menntamálaráðherra.