144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, talaði um áðan að þau í Vinstri grænum kölluðu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Ég spyr líka að þessu í ljósi þess að málþóf er kerfislægt vandamál, sem er algerlega óháð því hverjir eru í minni hluta. Það er verið að rífast um dagskrána, sem meiri hlutinn hefur í rauninni 100% vald yfir og eina leiðin fyrir minni hlutann til að hafa áhrif á dagskrána er að beita málþófi. Hvaða áhrif telur þingmaðurinn að það mundi hafa, til að leysa það vandamál, ef annars vegar minni hluti þingsins, kannski þriðjungur þingmanna, gæti vísað málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og er í Danmörku, og hins vegar ef þjóðin sjálf hefði málskotsrétt, þannig að þegar Alþingi væri búið að samþykkja einhver mál hefði þjóðin varnaglann eða öryggisventilinn í sínum höndum og tiltekinn minni hluti, kannski 10% kjósenda, gæti vísað máli sem þingið hefði samþykkt til sín eða til þjóðarinnar í heild í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvaða áhrif telur þingmaðurinn að slíkt mundi hafa á vinnubrögðin á þingi og á málþóf, sátt og langtímastefnumörkun?