144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:34]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ísland er frábært og Íslendingar allra manna gjörvilegastir, alla vega stundum. Ætli við gerum okkur ekki samt flest grein fyrir því að Ísland er ekki fullkomið land frekar en nokkurt annað land í heiminum? En af dægurmálaumræðunni má jafnvel láta hvarfla að sér að hér ríki eymdin ein og það virðist vera orðin keppnisíþrótt að tala niður land og þjóð. Einstaklingar eru miskunnarlaust teknir fyrir og dæmdir hart, hvort sem þeir koma fram fyrir hönd þjóðarinnar eða starfa á öðrum vettvangi. Fólk virðist tregt til að tala um það jákvæða. Raunin er að benda má á ýmsar jákvæðar staðreyndir sem við sem þjóð getum verið stolt af.

Auðvitað viljum við öll að allir hafi það gott hér og enginn líði skort. Þannig getum við líka haft það því að gæðin til skiptanna eru næg. Það er samt forgangsatriði að huga að þeim sem lægstar hafa tekjurnar og leyfi ég mér að fullyrða að hér á landi hefur stór hluti þjóðarinnar það bara nokkuð gott. Það má til dæmis merkja af utanlandsferðum landans og aukinni verslun. Sá hópur hlýtur að geta hinkrað meðan við lögum aðstæður þeirra sem mest þurfa á því að halda.

Við Íslendingar erum vertíðarfólk og nú virðist megináherslan ekki vera sú að koma verðmætum í hús heldur ætla einhverjir að vinna keppnina um það hver er sniðugastur að tala allt og alla niður. Við erum lunkin við að koma með hnyttnar og meinlegar athugasemdir enda mælist yrt einelti alltaf hæst allra þátta í öllum eineltiskönnunum hér á landi.

Eftir þessa ræðu mína er ég nokkuð viss um að einhverjir munu stíga fram í netheimum, rakka ræðuna jafnvel niður og draga fram fávisku mína sem er vissulega einhver og skella fram hnyttnum alhæfingum um mig og flokkinn minn. Það er í góðu lagi svo lengi sem það er sniðugt.

Mig langar að gera orð Páls heitins Skúlasonar að lokaorðum mínum, með leyfi forseta:

„Forsenda þess að bæta heiminn er að takast á við spillinguna í sjálfum sér. Það að vera manneskja er að reyna að bæta sjálfan sig.“