144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir líki þessum aðstæðum við aðstæður þegar þingið átt við mál eins og Evrópusambandið og Icesave sýnir kannski hvað meiri hlutinn misskilur í þessu máli. Þetta mál er algjör óþarfi. Það liggur ekkert á því. (Gripið fram í.) Það er algjörlega sjálfsagt að bíða eftir að verkefnisstjórn 3. áfanga klári vinnu sína og eiga á meðan við þau mál sem eru aðkallandi, kjaradeilur og fleira og fleira og fleira. (UBK: Var ESB ekki aðkallandi?) ESB og Icesave eru ekki sambærileg við það að sóa vikum í frekjuna í hv. 6. þm. Suðvest. Sömuleiðis til að undirstrika hvernig fundarstjórn forseta er um þetta mál og hversu lítilvægur þessi fundur á morgun átti að vera, ég geri mér grein fyrir því að hann á ekki lengur að vera, eru hér bara þriðji og fjórði á mælendaskrá tveir aðalmenn í hv. atvinnuveganefnd sem áttu þá væntanlega að taka hér til máls og eyða sínum dýrmæta (Forseti hringir.) ræðutíma í að tala um efnisatriði málsins áður en fundurinn færi fram. Það undirstrikar að engin alvara er með því að funda um þetta í hv. atvinnuveganefnd. Það undirstrikar afleita fundarstjórn virðulegs forseta.