144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:59]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur stóð að miklum breytingum á skólakerfi í Reykjavík fyrir nokkrum árum og ef það er eitthvað sem sú reynsla kenndi mér er það það að samráð er nauðsynlegt og það verður aldrei nógu mikið samráð í breytingum í menntakerfinu. Það þarf að vera samráð við fagfólk, það þarf að vera samráð við fólkið á gólfinu, starfsmenn, stjórnendur, kennara, það verður að vera samráð við nemendur og foreldra og þegar við erum að tala um framhaldsskólakerfið verður auðvitað að vera ríkt samráð við sveitarstjórnir á svæðinu og Alþingi. Alþingi hefur hlutverk í stefnumótun í menntamálum og Alþingi hefur ábyrgð á eftirliti með framkvæmdarvaldinu. Ef Alþingi er skilið eftir í breytingum á skólakerfinu eykst úlfúð um þessar breytingar og það bætir gráu ofan á svart.

Skólakerfi er kerfi. Það er flókið kerfi. Það eru miklir peningar í húfi og þessi hluti skólakerfisins passar ágætlega í excel. En við þurfum að passa okkur á því að skólakerfið snýst fyrst og fremst um einstaklingana, nemendurna sem skólakerfið þjónar. Nemendur geta ekki farið aftur í skóla, þeir geta ekki lifað skólaárin sín aftur ef eitthvað í kerfinu klikkaði meðan þau voru í skóla. Ef eitthvað virkar ekki í skólakerfinu missa nemendurnir sem eru í skólakerfinu af möguleikanum. Þess vegna verðum við að passa upp á að kerfið taki tillit til þeirra einstaklinga sem eru þar núna, ekki þeirra sem verða þar einhvern tímann í framtíðinni.

Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri í Reykjavík, segir oft frá því að það sé talað um að vera heppinn með skóla eða heppinn með kennara en það sé sjaldan talað um að vera heppinn með til dæmis skurðlækni eða flugmann. Það er ekki í boði að treysta (Forseti hringir.) á heppni þegar kemur að breytingum á skólakerfi. Þess vegna má ekki miðstýra slíkum breytingu, það verður að drekkja þeim í samráði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)