144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

frumvörp um húsnæðismál og ríkisfjármálaáætlun.

[14:27]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir fyrirspurn hennar. Eins og ég fór í gegnum áðan þá er tilgangurinn með frumvarpinu tvíþættur, eins og hv. þingmaður nefndi, þ.e. annars vegar að auka húsnæðisstuðning við tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga og hins vegar að jafna opinberan húsnæðisstuðning til að fólk hafi raunverulegt val. Þar erum við að horfa til mikillar fjölgunar fólks sem er í leiguhúsnæði. Árið 2007 voru rúm 15% fjölskyldna í leiguhúsnæði en árið 2013 var hlutfallið komið í tæp 25%. Bæði félagsvísarnir og lífskjararannsókn Hagstofunnar, sem er notuð líka í félagsvísunum, benda til þess að rúm 22% leigjenda á almennum markaði séu undir lágtekjujörkum í samanburði við tæp 6% fjölskyldna í eigin húsnæði. Þarna er verulega mikill munur.

Það sem við höfum verið að vinna að er að mæta þessum breytta veruleika á húsnæðismarkaðnum. Þar byggjum við á þeirri miklu vinnu sem hefur verið í gangi á þessu kjörtímabili og þeirri vinnu sem var unnin á síðasta kjörtímabili. Það sem við höfum verið að gera núna í miklu samráði við aðila vinnumarkaðarins er að reyna að ná saman um það hvernig við getum tryggt öllum heimilum öryggi, húsnæðisöryggi. Þetta er gífurlega stórt mál. Það hefur verið fundað mjög oft undanfarnar vikur til þess að ná saman um það hvernig sé best að standa að þessu. Ég tel að frumvarpið eins og það mun koma fram þegar það gerist muni einmitt mæta nákvæmlega þeim atriðum sem ég nefndi og því sem lögð verður áhersla á (Forseti hringir.) í þessu mikla samráði (Forseti hringir.) innan ráðuneytisins og núna við aðila vinnumarkaðarins.

Hvað varðar ríkisfjármálaáætlunina þá (Forseti hringir.) geri ég ráð fyrir að hún muni taka breytingum (Forseti hringir.) í samræmi við niðurstöðu þess samráðs sem á sér stað í tengslum við kjarasamninga.