144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að byrja á því að vera algjörlega skýr um það hver afstaða mín er til þessa máls í heild sinni hvort sem um ræðir þann tiltekna virkjunarkost sem upprunaleg tillaga hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra gengur út á, sem er Hvammsvirkjun, eða þá virkjunarkosti sem nefndir eru í breytingartillögu hv. þm. Jóns Gunnarssonar og meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. Það eina sem vakir fyrir mér í þessu er að bjarga rammaáætlun. Hún er tilraun til þess að reyna að hafa eitt umdeildasta málasvið í nútímasögu Íslands í ferli sem sátt ríkir um. Nú er því aftur og aftur fleygt fram af hv. þingmönnum meiri hlutans að hér sé verið að gera nákvæmlega það sama, orðrétt, virðulegi forseti, og gert var á seinasta kjörtímabili. Það er kolrangt í meginatriðum. Í fyrsta lagi er ekki nákvæmlega það sama að setja eitthvað í nýtingarflokk og setja eitthvað í biðflokk. Það er einfaldlega ekki það sama. Alveg eins og það er ekki það sama að setja eitthvað í verndarflokk og setja eitthvað í biðflokk, það er ekki það sama að breyta grænu ljósi yfir í rautt og rauðu ljósi yfir í grænt. Þetta er tvennt ólíkt. Við eigum ekki að láta eins og það sé það sama.

Sömuleiðis hvað varðar ferlið þá er munur á því hvort um sé að ræða lagalegt ferli eða pólitískt ferli, eðlilega, og menn hafa með réttu hamrað á því. En jafnvel ef við látum eins og hér sé enginn lagalegur vafi til staðar, ef við leyfum okkur að láta þannig, er samt sem áður pólitískur ágreiningur til staðar. Og við hljótum að vilja leysa þann ágreining. Við hljótum að vilja það. Ég held ekki að neinn vilji raunverulega hafa ágreining um þetta mál. Ég held að einstaka hv. þingmönnum sé nákvæmlega sama þótt það sé ágreiningur um það, skemmtilegt nokk þá eru það jafnan þeir hv. þingmenn sem tala hvað mest um að enginn annar vilji sátt sem virðast kæra sig kollótta um sátt, án þess að ég nefni nein nöfn umfram önnur.

Ef við eigum að ræða einstaka virkjunarkosti sem fylgja breytingartillögu hv. atvinnuveganefndar verðum við fyrst að útkljá spurninguna um rammaáætlun. Nú get ég farið efnislega út í tiltekna virkjunarkosti vegna þess að ég er ekkert á móti þeim öllum. Ég er ekkert hlynntur þeim öllum heldur, en ég er ekkert endilega á móti þeim öllum. En við verðum að geta útkljáð spurninguna um rammaáætlun. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir hér er sá að okkur er ætlað að útkljá þetta mál, þessa tilteknu virkjunarkosti, ekki rammaáætlunin í heild sinni eða hvernig við ætlum að líta á lögmæta rammaáætlun, heldur þessa tilteknu virkjunarkosti áður en við getum klárað umræðuna um það hvernig við ætlum að halda rammaáætlun til framtíðar. Það er af þeim sökum sem ég legg til enn og aftur að þetta mál sé tekið af dagskrá þar til við höfum haft tíma og svigrúm til þess að nálgast þá spurningu af þeirri nærgætni og fagmennsku sem við ættum að gera kröfu um frá okkur sjálfum. Þangað til við höfum átt það samtal um rammaáætlun og grundvallaratriðin um það hvernig við höldum áfram finnst mér ekki tímabært að ræða einstaka virkjunarkosti.

Fyrir utan þetta langar mig að benda á eina staðreynd sem er sú að ef þetta ferli sem hér á sér stað á að vera lögmætt, þá meina ég pólitískt lögmætt, ekki lögfræðilega lögmætt, og eins og við hugsum okkur rammaáætlun, þá erum við komin aftur með einstaka virkjunarkosti efnislega aftur hingað inn í þingið. Efnisleg matsatriði, hið svokallaða faglega mat, eru þá aftur komin hingað inn. Gjörvallur tilgangur rammaáætlunar var að forðast nákvæmlega það. Þannig að ef við leyfum okkur þessa málsmeðferð þá getum við ekki látið eins og rammaáætlun sé enn þá í gildi, eða alla vega ekki að hún hafi náð sínum pólitísku markmiðum. Og þá skulum við bara viðurkenna það og byrja aftur upp á nýtt frekar en þetta hálfkák að koma fram með þessa tillögu undir gervi rammaáætlunar og láta eins og við séum að gera þetta í samræmi við rammaáætlun. Jafnvel þó að það sé lögfræðilega satt þá er það ekki pólitískt satt og er ekki fullkomlega heiðarlegt.

Hvað varðar einstaka virkjunarkosti þá þykir mér einsýnt að Hagavatnsvirkjun hafi verið hent inn í þessa breytingartillögu til þess eins að hv. atvinnuveganefnd gæti síðan tekið hana til baka til þess að sýna fram á hvað hún væri ofboðslega mikið í vitinu og sanngjörn gagnvart gagnrýni. Auðvitað verður þó ekki hjá því litið að Hagavatnsvirkjun hefur aldrei nokkurn tímann fengið þá skoðun frá verkefnisstjórn 2. áfanga eða nokkurs annars áfanga að hún eigi heima í nýtingarflokki. Það sannar virðingarleysi meiri hluta hv. atvinnuveganefndar fyrir ferlinu. Það sannar það og er jafnvel hafið yfir óskynsamlegan vafa mundi ég segja. Það er vandamál, virðulegi forseti. Það er vandamál sem við eigum ekki að láta eins og sé ekki til.

Eins og ég hef sagt áður þá er ég á móti því að virkja Urriðafoss, en auðvitað á að liggja fyrir því viðunandi faglegt mat sem liggur ekki enn þá fyrir vegna laxastofnsins. Með Hagavatnsvirkjun þá sýnist mér í fljótu bragði, með þeim fyrirvara að ekki eru öll kurl komin til grafar hvað hana varðar, hún alls ekki vera vitlaus hugmynd, hún virðist meira að segja vera góð fyrir umhverfið í fljótu bragði séð, þannig að það ætti ekki að vera efnislegur ágreiningur um hana af minni hálfu, ef ég skil þetta rétt. Enda snýst þetta ekki um efnislegan ágreining um einstaka virkjunarkosti. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa ítrekað sagt að þeir mundu helst ólmir vilja styðja suma virkjunarkosti vegna þess að þetta er ekki þannig að við viljum virkja allt eða virkja ekkert, þetta er ekki svo einfalt. En þegar við tökum burt grunninn sem er rammaáætlun þá er ekkert eftir nema það umræðuefni hvort við séum almennt hlynnt virkjunum eða ekki.

Það er vegna þess að hér fer allt í döðlur, svo ég leyfi mér nútímamál, virðulegi forseti, að rammaáætlun var sett á fót til að byrja með, til að forðast ágreining um það sem á heima í faglegu mati. Það þýðir auðvitað að einstaka virkjunarkostir þurfa að ganga í gegnum faglegt mat. Í raun og veru ætti að vera nóg að benda á það, og það hefur verið gert hér ítrekað, að verkefnisstjórn lagði ekki til breytingu á virkjunarkostunum í neðri Þjórsá, þ.e. hvorki á Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun né hinum, miðað við þá þingsályktunartillögu sem var lögð fram 2013. Við eigum ekki að láta eins og við séum í einhverju ferli sem getur verið sátt um ef við ætlum ekki að ræða rammaáætlun, ekki einstaka virkjunarkosti heldur rammaáætlun, planið sjálft, hvernig við ætlum að hafa þetta ferli, því það er ágreiningur um það. Hvort sem fólki líkar betur eða verr þá hefur fólk ekki sömu sýn á það hvernig ferlið á að virka. Þess vegna erum við hér að deila um það.

Það er ýmislegt sem kemur til greina. Ef maður skoðar nefndarálit frá fyrra kjörtímabili eða þessu kjörtímabili, ef maður kafar ofan í málið, sést að það er fullt af álitaefnum, t.d. það hvernig umsagnarferlið átti að virka á seinasta kjörtímabili og hvort það hafi verið sæmandi ráðherra að setja kosti aftur í biðflokk — mér finnst það allt í lagi, ég sé ekkert að því, enda varúðarreglan mikilvæg. Ég styð hana heils hugar, mér finnst að allir ættu að gera það, en það er samt ágreiningur um það og ég viðurkenni það, ég sé það. Það er mikilvægt að við útkljáum þann ágreining áður en við tökum varanlegar ákvarðanir. Þar birtist helsti munurinn á því að setja eitthvað í nýtingarflokk, þ.e. að virkja eitthvað og að virkja ekki eitthvað. Að virkja ekki eitthvað er ekki varanleg ráðstöfun. Að virkja eitthvað er það hins vegar, alla vega á það við marga af þessum kostum, menn vita ekki alveg með Skrokkölduvirkjun, en í tilfelli neðri hluta Þjórsár eru það varanlegar virkjanir, varanleg áhrif. Það að fara varlega getur aldrei verið sett að jöfnu við það að fara of hratt.

Mér þykir þetta augljóst í kjölfar þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað. Mér finnst sjálfsagt að við bíðum með að ræða þetta frekar þar til við höfum fengið almennilega umræðu innan þings sem utan um það hvernig við ætlum að haga rammaáætlun til framtíðar.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.