144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi var Hagavatnsvirkjun ekki í nýtingarflokki í 2. áfanga rammaáætlunar. Í öðru lagi: Ef búið er að kanna öll þessi álitamál þá ætti verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar ekki að eiga í neinum vandræðum með að svara þessum spurningum mjög hratt. Ef öll þessi gögn liggja fyrir, ef búið er að svara þessum spurningum, þá ætti ekki að þurfa að bíða í eitt og hálft ár. Sömuleiðis mundi verkefnisstjórn 3. áfanga væntanlega leggja það til að þessir kostir yrðu settir í nýtingarflokk eins og verkefnisstjórn 2. áfanga gerði.

Mér þykir það alveg ljóst að ef eina spurningin er sú hvort verkefnisstjórn 3. áfanga fái að klára sína vinnu, og taka mið af þeim gögnum sem hv. atvinnuveganefnd hefur góðfúslega safnað saman, þá finnst mér ekkert að því að menn bara geri það. En það er ekki það sem við ræðum hér. Hér ræðum við það hvort við ætlum að samþykkja eða hafna þessum tilteknu virkjunarkostum. Ef eingöngu væri um Hvammsvirkjun að ræða væri ekki þessi uppsteytur, þá væri ég vissulega ekki hér með þennan uppsteyt.

Ég veit ekki nákvæmlega hvort ég mundi greiða atkvæði með eða á móti Hvammsvirkjun, það er ein af þeim virkjunum sem ég er ekki alveg búinn að mynda mér endanlega skoðun á. Ég hallast að því að samþykkja hana eða greiða atkvæði með henni en ég er ekki viss. Um Holtavirkjun er ég enn þá minna viss. Ég er viss um að ég mundi greiða atkvæði gegn Urriðafossvirkjun. Um Hagavatnsvirkjun vantar meiri gögn, ekki er búið að kanna það til hlítar, en ég er alla vega jákvæður fyrir henni. Sömuleiðis hvað varðar Skrokkölduvirkjun með þeim fyrirvara að mér skilst að hún opni leið inn á miðhálendið fyrir aðrar virkjanir sem ég hreinlega þekki ekki til hlítar og hef ekki haft færi á að kynna mér enn. Þannig að það er með öllum fyrirvara. En 35 megavatta virkjun sem á að vera neðan jarðar hljómar ekki það hræðilega fyrir mér, þ.e. ef ekki er fyrir þessar raflínur í lofti, sem ég er líka á móti.

Við getum rætt þetta alveg endalaust en mér finnst ekki við hæfi að ræða hvernig undirstaða rammaáætlunar á að vera þegar við horfumst í augu við þessa tilteknu virkjunarkosti sem við erum að hefja efnislega umræðu um, umræðu sem á heima í faglegu ferli. Hér er pólitískt ferli búið að taka við af (Forseti hringir.) faglegu ferli. Það er það sem mér finnst rangt. Ég trúi ekki að það muni ganga ef sátt á að nást um það hvernig farið verður með þessi mál í framtíðinni.