144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.

610. mál
[12:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er mér miklu fremri um kunnáttu og reynslu af þessum málum. Ég lít svo á að ég sé hér í eins konar námskeiði hjá hv. þingmanni. Það gleður mig hvernig hann tekur á þessu máli, stundum hefur hann verið mjög kaþólskur í þessu, en mér finnst hann sé nú allur að færast til lútersks frjálslyndis.

Í fyrra eins og hv. þingmaður man kom hér skip undir grænlenskum fána, sigldi til heimahafnar hv. þingmanns og fékk ekki að landa og hvað gerði skipið þá? Það fór til Færeyja og landaði þar. Það þótti mér mjög skrýtið. Með öðrum orðum, Íslendingar voru sviptir og heimahagar hv. þingmanns sviptir þeim ávinning sem hefði þó orðið af því að eiga samskipti og viðskipti við þetta tiltekna grænlenskt flaggaða skip, en þá fór það bara til einnar annarrar þjóðar sem er líka partur af „makrílsamkomulaginu“ og ætti að gilda um það allar alþjóðlegar skuldbindingar sem við teljum að við séum að hlíta með þessu. Mér finnst þetta svolítið ankannalegt.

Í öllu falli, ef að því kæmi að þetta væri ekki lengur rannsóknarkvóti heldur hefðu Grænlendingar þarna hlutdeild, sem ég tel reyndar að þeir hafi með þegjandi samþykki allra aðila máls, er það eiginlega mjög umhendis að meina síðan Íslendingum samskipti á viðskiptalegum grundvelli fyrir slík skip. Það er ljóst að Íslendingar og Grænlendingar vilja semja á grundvelli þess sem t.d. Evrópusambandið hefur lagt til og menn eru að vinna eftir, en einhver fjandans önnur þjóð sem beitir okkur bolabrögðum og hefur með því mjög útsmoginn tilgang á að knýja okkur til þess að verða af slíku. Þá finnst mér eiginlega að það sé farið að lesa biblíuna með þeim formerkjum sem ákveðinn höfðingi undirheimanna með (Forseti hringir.) horn og klær mundi gera.