144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi 12 daga regla sem nú verður sex daga regla mun einkum hafa áhrif á farþegaflutninga og mun þýða það að farþegaflutningar sem eru taldir yfir landamæri, þar á meðal þegar hópferðabifreiðar koma með Norrænu, þar er hámarkstími fyrir ökumann 12 dagar, 12 daga akstur dag eftir dag, en ef um er að ræða akstur innan lands eftir mínum skilningi þá mun gilda sex daga regla, þ.e. 12 daga reglan tekur eingöngu gildi ef farið er yfir landamæri. Ég held að rótin að þeirri reglusetningu eigi engan veginn við hér á landi. Af þeim sökum studdum við í utanríkismálanefnd það og lögðum til þegar málið kom til okkar á fyrri stigum að leitað yrði leiða til þess að fá undantekningu fyrir okkur. Höfðum við þá fyrst og fremst í huga farþegaflutninga sem felast í akstri um hálendið þar sem kann að vera óhægt um vik að skipta um bílstjóra í miðri ferð o.s.frv. En samkvæmt upplýsingum okkar skilaði viðleitni stjórnvalda til að fá undantekningu hvað þetta varðar ekki árangri. Jafnframt komu fram upplýsingar frá aðilum í ferðaþjónustu að þeir teldu að það ætti að vera hægt að skipuleggja starfsemi þeirra með þeim hætti að þetta kæmi ekki að sök, alla vega ekki teljandi. Í mínum huga er þetta dæmi um óþarfa reglusetningu á grundvelli reglna Evrópusambandsins, en (Forseti hringir.) hins vegar mál af þeirri stærðargráðu að ekki er ástæða til að láta það valda vandræðum í heildarsamhengi Evrópska efnahagssvæðisins.