144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:46]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er sammála því að það þurfi að skoða þetta heildstætt. Eins og hv. þingmaður segir er lyfjanotkun mikil og það þarf að minnka hana. Ég sé ekki að með því að auka auglýsingar og bæta þar í munum við ná því markmiði. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það sé að minnsta kosti hægt að draga úr og taka fyrir það að íslensk lyfjafyrirtæki auglýsi á netinu. Við sjáum „bannera“ á Facebook og Google Ads o.s.frv. Ég þekki þetta ekki til hlítar, en ég held að við gætum takmarkað það að okkar fyrirtæki fari með þessar upplýsingar til fólks sem þarf eða þarf ekki á því að halda að taka lyf.

Í seinna andsvari langar mig samt til að spyrja hv. þingmann annars. Í 1. gr. stendur að það eigi að vera ákveðnar upplýsingar í auglýsingum eða birta vísun á fylgiseðil með lyfinu á vef Lyfjastofnunar. Annaðhvort á að tíunda í auglýsingunni þessar aukaverkanir, sem mér finnst eitt alvarlegasta dæmið, eða vísa á vef Lyfjastofnunar. Þetta er ekki til þess að segja fólki hvað er gott eða slæmt (Forseti hringir.) við lyfið og það er að mínu mati siðferðislega rangt.