144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

aðgerðir í þágu bótaþega.

[10:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekkert að reyna að finna einhverja sem njóta ekki þessarar aðgerðar. Það er gríðarlegur fjöldi. Hæstv. forsætisráðherra ætlar bara einhvern tímann seinna að ræða aðstæður aldraðra og öryrkja. Á þessu kjörtímabili hafa bætur almannatrygginga einungis hækkað í samræmi við verðlag en ekki í samræmi við launaþróun. (Gripið fram í.) Það hefur orðið verulegur munur á milli launaþróunar og verðlagsþróunar launaþróuninni í hag.

Nú stendur fyrir dyrum að launin hækki enn meira. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að svara þeim gríðarlega fjölda aldraðra sem reiðir sig á lágmarksbætur almannatrygginga hvernig eigi að tryggja öldruðum mannsæmandi framfærslu. Ef það er orðið grundvallarviðmið í samfélaginu að mannsæmandi framfærsla sé 300 þús. kr. eiga aldraðir rétt á því sama og öryrkjar sem hafa ekki valið að geta ekki unnið eiga rétt á því sama. Hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að tryggja það núna, ekki seinna? Hann hefur nefnilega ekki enn efnt það sem hann sagðist ætla (Forseti hringir.) að efna einhvern tímann seinna (Forseti hringir.) hvað varðar úrlausnir fyrir skuldug heimili.