144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

stefna í efnahagsmálum.

[10:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef fyrr í morgun viðrað þá skoðun mína að þingið sé stjórnlaust. Nú langar mig að viðra þær grunsemdir mínar að efnahagslífið sé stjórnlaust líka og það ríki lausatök á stjórn efnahagsmála. Því miður æxluðust mál þannig á Íslandi að hér urðu og eru enn þá miklar kjaradeilur. Þær eru að leiða til umtalsverðra launahækkana og maður verður bara að vona að atvinnulífið standi undir þeim, en svo er verið að boða skattalækkanir og mjög umfangsmiklar tollalækkanir sem eru auðvitað ein og sér að mörgu leyti ágæt mál. Þetta kemur ofan í umhverfi skuldaniðurfellingar sem er mjög umdeild aðgerð upp á 100 milljarða plús sem aðallega snerist um að mínu viti að deila út fjárhæðum til tekjuhárra. Það eru boðaðar byggingar félagslegra íbúða sem er mjög umfangsmikil og dýr aðgerð ofan á það að byggingariðnaðurinn er á fullu að byggja hótel og íbúðir af öðru tagi og sveitarfélögin hafa ýmis áform um byggingar líka. Hér er rætt um að fara í mjög umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir. Og svo kemur afnám hafta inn í þetta umhverfi allt saman. Ég ítreka að þessir liðir einir og sér eru margir hverjir og flestir góðir, en þegar allt er saman tekið þá finnst mér við vera að horfa á þann möguleika að við séum að fara að endurtaka mistökin frá 2005 sem enduðu í hruni 2008. Ofþensla.

Mig langar einfaldlega að spyrja hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Hefur hann áhyggjur af því að við séum að sigla inn í stjórnlaust tímabil (Forseti hringir.) ofþenslu, of hárra vaxta og viðskiptahalla þegar allt er saman tekið?