144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að 5,3% sé mjög nálægt því að vera reikningsleg niðurstaða því að menn skoðuðu það magn sem komið var í hliðarráðstafanir inn í kerfinu, í strandveiðar, í skel- og rækjubætur, í byggðastofnunarkvóta, í hefðbundinn byggðakvóta, í línuívilnun, frístundaveiðar o.fl. Á árum áður var þetta tekið til hliðar af bolfiski eingöngu, þorski, ýsu og ufsa. Svo sáu menn að það var ekki sanngjarnt að láta allar félagslegu ráðstafanirnar hvíla bara á tilteknum greinum þannig að menn færðu þetta yfir í að taka tiltekið hlutfall af öllum úthlutuðum veiðiheimildum, sem er óumdeilanlega sanngjarnara og eðlilegra fyrirkomulag. Til þess að ekki þyrfti að skerða byggðakvóta, skel- og rækjubætur, línuívilnun eða annað þá þurfti um það bil þetta magn til að framkvæma kerfið í þessari nýju mynd, að einhver X hlutdeild af öllum úthlutuðum veiðiheimildum rynni í pott til að standa undir þessum jöfnunaraðgerðum. Þannig gerðist það hér um bil.

Er það vísindalega útreiknað? Nei. Þarf það að vera meira? Já, að mínu mati þarf það að vera það. Þar nefni ég alveg sérstaklega leiðir til þess að auka byggðafestu. Ég held að með því að rýmka þetta upp í eitthvað, eins og 8–10%, þá væri hægt með byggðafestukvóta að stöðva að mestu leyti frekari uppflosnun sjávarbyggða á Íslandi, með því að festa nægjanlegt magn veiðiheimilda sérstaklega í minni sjávarbyggðunum þannig að sá grunnur væri alltaf þar, óframseljanlegur og færi aldrei, jafnvel þó að það yrðu áföll og einhverjir sem væru þar í rekstri lentu í erfiðleikum þá væri hægt að byggja upp aftur og byrja á grunninum sem staðurinn ætti, sem byggðin ætti. Þannig hefði kvótakerfið þurft að vera frá byrjun. Ef menn hefðu borið gæfu til þess 1983 að festa einhvern hluta veiðiheimildanna við byggðarlögin en ekki úthluta öllu á útgerðirnar þá væri margt öðruvísi umhorfs á Íslandi í dag.