144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[17:46]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vil árétta það sem hann sagði um aðkomu sína að gerð þess lista sem hér hefur verið vísað til. Forseti hefur eingöngu látið taka saman upplýsingar um mál sem búið var að afgreiða út úr nefndum og eru oft kölluð þingmannamál og hann taldi sig hafa gert grein fyrir hér áðan og sömuleiðis mál sem fyrir liggur að ætlunin er að nefndir flytji. Forseti harmar það aftur ef tilraun hans til að reyna að varpa sem skýrustu ljósi á stöðu mála með því að leggja fram þessi gögn hafi orðið til þess að flækja málið með (Gripið fram í.) einhverjum hætti. Að öðru leyti lögðu hæstv. forustumenn ríkisstjórnarflokkanna fram sín forgangsmál skilmerkilega eins og hér hefur verið sagt. (GuðbH: Sem var sami listinn?) Án þess að ætla að fara hér í umræður finnst forseta þetta vera óskaplega einfalt. Þetta er þannig að forustumenn ríkisstjórnarinnar lögðu hér fram tiltekinn forgangslista. Forseti ákvað síðan óháð honum að leggja fram þær upplýsingar sem hann er þegar búinn að gera grein fyrir, en tilraun forseta til að reyna að varpa betra ljósi á þetta mál virðist hafa valdið hér ruglingi.