144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spennan magnast sennilega á næsta ári, svo mikið er víst. Þar sem ég hef sennilega ekki komið þessu alveg nógu skýrt frá mér þá langar mig til skýringar að lesa upp úr 34. gr. frumvarps stjórnlagaráðs, ekki í heild sinni að vísu en þetta er grundvöllurinn að því sem ég er að reyna að koma að hérna, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Það sem mér finnst svo miklu sterkara í þessum texta en í hugmyndinni um það eitt að auðlindin sé í þjóðareign er að þarna sýnist mér afskaplega skýrt að ekki myndist eignarréttur, sé ekki kvótakerfi þar sem handhafar kvótans hafi einhvers konar varanlegan nýtingarrétt og geti kært ríkið ef þessu er einhvern veginn ráðstafað öðruvísi, að það myndist ekki þessi meinti varanlegi eignarréttur.

Nú deilir fólk um það að mér heyrist hvort kvótasetningin eins og hún liggur fyrir núna skapi varanlegan eignarrétt, þ.e. hvort ríkið yrði skaðabótaskylt ef það ákvæði skyndilega — ég er ekki að leggja til að það geri það hér og nú — að hætta einfaldlega að úthluta kvóta til manna, þá væri það bundið lagalegum vandkvæðum, sem hv. fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins gæti kannski útskýrt fyrir okkur í ræðu seinna, hver veit. Það er þessi eignarréttur yfir kvótanum, ekki auðlindinni heldur kvótanum, yfir nýtingarheimildunum sem ég velti fyrir mér hvort ekki sé mikilvægt að tekið sé á í stjórnarskrárákvæði líka, frekar en að hafa einfaldlega það sem er þegar í gildi og stendur í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.