144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef heyrt áður að það er framkvæmdarvald í landinu og svo löggjafarvald. Löggjafarvaldið setur lögin og framkvæmdarvaldið framkvæmir. Svo er það stundum þannig að löggjafarvaldið heftir það sem framkvæmdarvaldið má gera. Þó að þeir sem fara með framkvæmdarvaldið séu sjálfstæðir þá geta þeir ekki bara farið sínu fram. Það er einmitt eitt af því sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem ég vitnaði til í ræðu minni áðan, að framkvæmdarvaldið hefði verið frekar frekt til fjörsins á árunum fyrir hrun og við skyldum öll læra af því.

Í þessu tilfelli er kannski verið að árétta það að framkvæmdarvaldið ákveði hvar stofnanir séu. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að veturinn í ár sanni það að einstöku ráðherrum, einstakri einni manneskju er ekki treystandi til að fara með þetta vald og löggjafarvaldið þarf að hafa puttana í því. Það er mín skoðun á þessum málum. Hún er önnur en þingmannsins og ég er eiginlega stórfegin því, virðulegi forseti.

Varðandi úrskurðarnefndirnar þá tel ég að það sé umræða sem við þurfum að taka. Það má vel vera að það sé sniðugra að hafa hér stjórnlagadómstól. Það er akkúrat það sem ég er að segja, það þarf að taka þá umræðu. Þess vegna finnst mér vont að það sé verið að setja þessi atriði inn í þetta frumvarp. Það var það sem ég var að reyna að segja, að það fengi ekki þá umfjöllun sem það þyrfti. Það þarf að líta yfir þetta, úrskurðarnefndirnar og það allt. Það þarf að líta yfir þetta allt í samhengi. Það getur vel verið að við verðum sammála einhvern tíma, að lokum. (Forseti hringir.) Það er nú aðallega þetta sem ég vil segja. Þess vegna finnst mér vont þegar er verið að smygla svona málum inn í frumvarp af þessu tagi.