144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir andsvarið. Hann tengdi inntakið í því frumvarpi sem við fjöllum um, um breytingar á lögum um Stjórnarráðið, við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þær ályktanir sem dregnar voru út frá því mikla verki, um gerræði og ráðherravald, og hvort við séum að stíga skref með þessu frumvarpi. Ég fór í ræðu minni yfir frumvarpið og innihald þess út frá meginmarkmiðunum um að auka sveigjanleika.

Í stjórnsýslu okkar er mikil þekking og krafan almennt á skipulag þekkingar fyrirtækja er að byggja inn í skipulagið sveigjanleika þannig að hæfni, færni og þekking nýtist með sem skilvirkustum hætti.

Þá sitjum við uppi með næstu spurningu, þ.e. um þá sem stjórna slíkum skipulagsheildum, ráðherra í þessu tilviki. Hann fær mikið vald en hann hefur líka jafnframt mikla ábyrgð. Í þeim rannsóknum sem við fórum eðlilega í í kjölfarið á hruninu, þessu mikla hruni á fjármálakerfinu, þá áttuðum við okkur á því að við þyrftum að styrkja eftirlit og jafnframt aðhald og mér fannst okkur takast ágætlega til, til dæmis með stofnun þeirrar nefndar sem fjallar um þetta frumvarp, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.