144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:41]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna, hún var góð. Hann lagði mest út frá fiskistofumálinu í ræðu sinni, sem kom upp á síðasta ári. Ég get alveg heils hugar tekið undir það með honum að það var eins og blaut tuska í andlitið að lesa í fréttum að færa ætti Fiskistofu norður á Akureyri og án þess að haft væri samráð við nokkurn, hvorki þing né starfsmenn, ekki einu sinni forstjórann. Ég heyrði af því sögur að hann hefði fengið þær fréttir á knattspyrnumóti í Vestmannaeyjum að verið væri að flytja stofnunina sem hann væri í forsvari fyrir norður á Akureyri og sýnir það hvers konar vinnubrögð voru viðhöfð.

Ég nefndi það í andsvari áðan að það kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis að eitt af því sem var mjög slæmt fyrir stjórnsýslu Íslands var hið mikla ráðherraræði og það mátti lesa um það í viðtölum við ráðherra. Það kom líka fram að hið mikla ráðherraræði mundi auka líkurnar á þessar gerræðislegu ákvarðanir væru teknar án þess að haft væri samráði við nokkurn mann sem að málinu kæmi og sérstaklega þá sem málið varðaði. Það er engin fagleg nálgun í því.

Er þingmaðurinn sammála mér í því að þetta frumvarp, og sérstaklega 1. gr., sé einmitt til þess fallið að auka gerræðislegar ákvarðanir ráðherra, því að nú kom líka fram að það voru gerð lög um Stjórnarráð Íslands árið 2011 sem miðuðu að því að minnka þetta ráðherraræði?